Launakerfi breytt í aðdraganda samninga

Nokkrir starfsmenn voru óánægðar með þær breytingar sem voru gerðar …
Nokkrir starfsmenn voru óánægðar með þær breytingar sem voru gerðar á samningum þeirra í aðdragana lífskjarasamninganna.

Samningar starfsmanna Fiskeldis Austfjarða ehf. voru endurskoðaðir í vikunni sem leið, nokkrum dögum áður en lífskjarasamningar koma til samþykkta. Flestir starfsmenn þar skrifuðu undir uppfærslur á samningum sínum. Tveir eða þrír, sem voru óánægðir, neituðu að skrifa undir breytingarnar. Á morgun lýkur kosningu um nýja lífskjarasamninga.

Guðmundur Gíslason, stjórnarformaður félagsins, segir spurður hvort þetta séu launalækkanir að um sé að ræða breytingar á launakerfinu, sem hafi ekki verið nógu gott. „Það var verið að breyta uppsetningunni á þessu. Þeir voru með föst laun og nú er búið að breyta því, þannig að nú er það breytilegt eftir því hvað er unnið mikið,“ segir hann í samtali við mbl.is. „Stundum var unnið mikið og þeir fengu þá ekki meira greitt og aðra mánuði var minna unnið og þeir fengu þá meira greitt.“

Um er að ræða fiskeldi í kvíum í Berufirði, þar sem starfsmenn eru á annan tug. Þeir eru í kringum 15. Starfsmenn þessir heyra flestir undir AFL starfsgreinafélag. Enn eru greidd atkvæði um nýja lífskjarasamning SGS og SA þar til á morgun.

Guðmundur segir þetta uppfærslu á samningum sem fyrir voru við starfsmennina en þeir höfðu verið í gildi frá upphafi rekstrarins 2012. Hann segir aðgerðina núna vera gerða „í takt við“ tilvonandi lífskjarasamninga. „Fyrir mitt leyti samþykki ég samninginn. Við erum hvort eð er að borga langtum hærra en allir taxtar,“ segir Guðmundur.

Spurður hvort tímasetningin kalli ekki á tengingu við lífskjarasamningana segir Guðmundur: „Þetta hefur ekkert með þá að gera. Það er búið að uppfæra samningana með tilliti til fiskeldis og við erum að taka tillit til þeirra breytinga, sem eru í lífskjarasamningnum. Í raun og veru erum við bara að fara eftir þeim,“ segir hann.

Spurður að hverju óánægja umræddra starfsmanna hefur beinst segir hann að það sé enginn einn sérstakur þáttur. „Það er enginn sérstakur þáttur. Þeir óskuðu eftir að þessu yrði breytt, þeir eru langflestir búnir að skrifa undir, sáttir og ánægðir með þetta,“ segir hann. Hann segir að annars sé gott samtal í gangi við þá sem voru óánægðir, enda sé þetta gert í samráði við starfsmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert