Heldur sambandi við ættingja og vini í Hollandi

Bjarni Finnsson, Bernhard Þór Bernhardsson og Tom J.M. van Oorschot, …
Bjarni Finnsson, Bernhard Þór Bernhardsson og Tom J.M. van Oorschot, sendiherra Hollands á Íslandi, á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum haldið sambandi við ættingja okkar í Hollandi og gerum enn sem og vini sem við eigum þar,“ segir Bernhard Þór Bernhardsson, sviðsstjóri á viðskiptabankasviði Arion banka, sem skipaður hefur verið aðalræðismaður Hollands á Íslandi.

Bernhard er 46 ára gamall og stýrir vöruþróun og stafrænum viðskiptum á sviði sínu í bankanum. Hann kveðst stoltur af því að hafa verið beðinn um að taka að sér þetta heiðursembætti fyrir Holland þar sem hann á rætur.

Bjarni Finnsson, fyrrverandi kaupmaður í Blómavali, var aðalræðismaður Hollendinga í um 20 ár. Þegar hann ákvað að hætta benti hann á Bernhard Þór sem hugsanlegan eftirmann. „Það er verið að horfa til tengsla við Holland, tengingar inn í viðskipta- og menningarlífið á Íslandi og áhuga á að rækta samband þjóðanna. Bjarni vissi að ég er ættaður frá Hollandi og nefndi mitt nafn,“ segir Bernhard.

Tilnefning hans var kynnt 30. apríl þegar haldið var upp á hollenska konungsdaginn hérlendis. Konungsdagurinn er raunverulega 27. apríl og er afmælisdagur Willems-Alexanders, konungs Hollands. Hollenska sendiráðið í Ósló var raunar með opið sendiráð hér alla vikuna til að sinna erindum Hollendinga hér.

Við þetta tækifæri var Bjarni Finnsson sæmdur hollenskri orðu í þakklætisskyni fyrir starf hans sem aðalræðismanns.

Afinn frá Hollandi

Bernhard segir að starf aðalræðismanns fari mikið eftir áhuga viðkomandi og dugnaði. Það snúist aðallega um að reyna að efla tengsl landanna. Dagleg störf við að þjóna Hollendingum hér fara fram á ræðismannsskrifstofu sem rekin er í Reykjavík.

Afi Bernhards, Jóhannes Jónsson [Jan Jansen], var hollenskur garðyrkjumaður sem flutti hingað til lands árið 1939 til að miðla af þekkingu sinni við uppbyggingu garðyrkjustöðva hér. Hann var verkstjóri á Syðri-Reykjum í Biskupstungum en var á stríðsárunum kallaður í herinn og gegndi herþjónustu í útlagahernum í Bretlandi þar sem konungurinn og ríkisstjórnin sátu en landið var hernumið af Þjóðverjum. Að styrjöldinni lokinni kom Jan aftur til Íslands og var lengi garðyrkjustjóri á Laugalandi í Borgarfirði eða þar til hann og íslensk kona hans, Þuríður Jónsdóttir, stofnuðu eigin garðyrkjustöð, Dalbæ á Kleppjárnsreykjum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 4. maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert