Komst úr landi eftir svik við WOW

Andvirði þeirra farmiða sem maðurinn sveik út og gerði tilraun …
Andvirði þeirra farmiða sem maðurinn sveik út og gerði tilraun til að svíkja út frá WOW air nema um þremur milljónum króna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Franskur karlmaður hefur í Héraðsdómi Reykjaness verið dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir umtalsverð farmiðasvik við flugfélagið WOW air. Maðurinn sætti farbanni vegna málsins, en er talinn hafa komist burt úr landi um miðjan desember.

Ákæran gegn manninum var tvíþætt. Annars vegar vegna þeirra farmiða sem hann náði að svíkja út og hins vegar fyrir tilraun til farmiðasvika. Í öllum tilfellum gaf hann upp greiðslukortanúmer annarra einstaklinga, ýmist einn síns liðs eða í félagi við óþekktan mann.

Manninum tókst að svíkja út sex farmiða á tímabilinu 1. febrúar – 27. ágúst 2018. Um var að ræða flug báðar leiðir á milli Amsterdam og New York, flug frá Los Angeles til Amsterdam, flug frá Los Angeles til Barcelona og flug frá Amsterdam til Miami þar sem ávallt var millilent á Keflavíkurflugvelli. Auk þess var um að ræða flug fram og til baka frá Amsterdam til Keflavíkur, en hann var þá handtekinn við komuna til Íslands.

Andvirði farmiðasvikanna námu rúmum 2.400 dollurum og rúmum 6.400 evrum, eða um 1,2 milljónum króna.

Auk þess gerði hann tilraun til þess að svíkja út átta farmiða á tímabilinu 22. janúar – 10. ágúst 2018. Þar var um að ræða þrjár ferðir frá Barcelona til Los Angeles, þrjár ferðir frá Los Angeles til Amsterdam, eina ferð frá Amsterdam til Los Angeles og eina ferð frá New York til Amsterdam, ávallt með millilendingu á Keflavíkurflugvelli.

Andvirði þeirra farmiða sem hann gerði tilraun til þess að svíkja út námu tæpum 4.700 dollurum og rúmum 8.300 evrum, eða rúmum 1,7 milljónum króna.

Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi frá 31. ágúst – 5. september 2018, en var úrskurðaður í farbann eftir það. Hann komst engu að síður úr landi, líklega um miðjan desember í fyrra. Var hann því ekki viðstaddur dómsúrskurðinn, en hann var dæmdur í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi og til að greiða lögmanni sínum tæpa milljón króna. Í dómi segir að brot hans hafi verið stórfelld, ítrekuð og ófyrirleitin.

mbl.is