Kyrrsetningarmálið tekið fyrir á miðvikudag

TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá 18. mars.
TF-GPA hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli frá 18. mars. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Isavia skilaði í dag greinargerð sinni í öðru aðfararbeiðnamáli sínu gegn Isavia fyrir héraðsdómi. Í framhaldinu var ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram næsta miðvikudag, en tekist er á um hvort að greiðsla ALC upp á 87 milljónir dugi til að kyrrsetningu verði aflétt meðan fyrra mál félaganna er til afgreiðslu hjá Landsrétti. Í fyrra málinu komst héraðsdómur að því að kyrrsetningin væri heimil sem veð fyrir skuldum vélarinnar, en ekki allra skulda WOW air við Isavia. Isavia kærði þann úrskurð og er nú beðið þess að Landsréttur taki málið fyrir.

Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC, segir í samtali við mbl.is að dómari hafi ákveðið að hafa munnlegan málflutning, en óljóst var fyrir fyrirtökuna hvort hann myndi fara fram þar sem báðir aðilar höfðu áður flutt mál sitt í fyrra málinu fyrir sama dómara.

Málið snýst á þessu stigi að sögn Odds réttarfarslegan ágreining, þar sem tekist er á um samspil milli nýju og eldri aðfararbeiðnanna. Isavia krefjist frávísunar á nýju beiðninni þar sem fyrra málinu sé ekki lokið, en ALC vilji fá svar við seinni beiðninni meðan sú fyrri sé enn í skoðun fyrir Landsrétti. Þá fer ALC einnig fram á frávísun á fyrri beiðninni í Landsrétti.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að vél ALC hefði verið færð á Keflavíkurflugvelli. Oddur staðfestir þetta og segir að um sé að ræða eðlilegt viðhaldsverkefni samkvæmt forskrift Airbus þegar um kyrrsettar vélar er að ræða. Segir hann þetta til viðhalda hreyflum og öðrum hlutum vélarinnar. Fyrst hafi þurft að keyra hreyflana upp og svo hafi verið farið með hana í skýlið til athugunar, mælinga og viðhaldsverkefna.

mbl.is