Tekur fyrir tengsl og kennitöluflakk

Félagið Show ehf. tók við rekstri tónlistarhátíðarinnar af Solstice Productions …
Félagið Show ehf. tók við rekstri tónlistarhátíðarinnar af Solstice Productions síðastliðið haust. mbl.is/Styrmir Kári

Framkvæmdastjóri Secret Solstice 2019 þvertekur fyrir að eitthvað í líkingu við kennitöluflakk hafi átt sér stað þegar nýir rekstraraðilar tóku við hátíðinni síðastliðið haust.

„Þetta eru ekki sömu hagsmunaaðilar og ef þú ert að spyrja um kennitöluflakk er það engan veginn staðan,“ segir Víkingur Heiðar Arnórsson í samtali við blaðamann mbl.is, spurður um meint fjölskyldutengsl fyrrverandi og núverandi rekstraraðila.

Félagið Show ehf. tók við rekstri tónlistarhátíðarinnar af Solstice Productions síðastliðið haust, og er Guðmundur Hreiðarsson Viborg skráður fyrir hinu nýja félagi. Stjúpsonur Guðmundar, Jón Bjarni Steinsson, var upplýsingafulltrúi hátíðarinnar í fyrra og er unnusti Katrínar Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarfélags hátíðarinnar og systur Friðriks Ólafssonar, eiganda Solstice Productions.

Þrátt fyrir þetta segir Víkingur Heiðar að „allt annar aðili“ eigi rekstur hátíðarinnar í dag. „Þetta er nýr eigandi og þeir sem áttu þetta áður eru búnir að tapa helling á þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert