Styrkurinn lægri en til annarra hátíða

Þórdís Lóa segir hátíðinna mikilvægt kennileyti, bæði fyrir ferðaþjónustu og …
Þórdís Lóa segir hátíðinna mikilvægt kennileyti, bæði fyrir ferðaþjónustu og menningar- og tónlistarlíf borgarinnar, í júnímánuði. mbl.is/Árni Sæberg

Styrkur sem tónlistarhátíðin Secret Solstice fær upp í skuld sína hjá Reykjavíkurborg er talsvert lægri en sambærilegar hátíðir fá frá borginni. Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.

Reykjavíkurborg og rekstraraðilar Secret Solstice skrifuðu undir samning nú í lok vikunnar, sem meðal annars kveður á um 8 milljóna króna styrk frá borginni sem gengur upp í 19 milljóna króna skuld fyrri rekstraraðila við borgina.

Aðspurð hvort um eðlilegt verklag sé að ræða segir Þórdís Lóa að svona hafi verið unnið áður í nokkrum málum sem upp hafa komið. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tónlistarhátíð á í erfiðleikum. Við látum styrkinn ganga upp í skuldina, styrk sem hátíðin hefði hvort eð er fengið og er reyndar mun lægri en aðrar hátíðir fá frá borginni.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um nokkurt skeið var óljóst hvort leyfi fengist fyrir hátíðinni hjá Reykjavíkurborg, en Þórdís Lóa segir að eftir langar samningaviðræður sé það metið sem svo að nýir rekstraraðilar Secret Solstice geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart borginni.

Hátíðin mikilvægt kennileyti í júnímánuði

„Við gengum úr skugga um það,“ segir Þórdís Lóa. Hátíðin sé mikilvægt kennileyti, bæði fyrir ferðaþjónustu og menningar- og tónlistarlíf borgarinnar, í júnímánuði og vinsæl hjá stærstum hluta Reykvíkinga. 

Þá segir Þórdís Lóa tónlistarhátíðina ekki falla undir innkaupareglur borgarinnar, þar sem kveðið er á um að fjárhagsstaða fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. „Þetta er bara samningur við tónleikahaldara eins og gert er við Hinsegindaga, Airwaves og fleiri menningarviðburði. Borgin er ekki að kaupa neina þjónustu heldur eru rekstraraðilar að fá leyfi borgarinnar tl að starfa í borgarlandinu.“

En hátíðin virðist ekki einungis eiga í skuld við Reykjavíkurborg, heldur hafa listamenn stigið fram og sagst ekki hafa fengið greitt fyrir framkomu sína á hátíðinni. Þórdís Lóa segir borgina ekki geta borið ábyrgð á þriðja aðila. Þrátt fyrir það sé málið litið alvarlegum augum og borginni sé umhugað um góða viðskiptahætti.

Borgin úrskurði ekki um meint kennitöluflakk

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var því haldið fram að forsvarsfólk nýs og gamals rekstrarfélags tónlistarhátíðarinnar væri tengt fjölskylduböndum, auk þess sem talsmenn íbúahóps Laugardals hafa sagt um að ræða sömu hátíð með sömu heimasíðu, sama svæði, sömu starfsmenn og útistandandi skuldir.

Aðspurð hvort um geti verið að ræða kennitöluflakk segist Þórdís Lóa ekki geta sagt til um það, enda sé Reykjavíkurborg ekkert úrskurðarvald í slíkum málum. „Við búum í borg þar sem viðskipti ganga stundum vel og stundum ver. Borgin sker ekki úr um þetta, en við erum að styrkja böndin við rekstraraðila og leggjum áherslu á að viðhafðir séu góðir viðskiptahættir.“

Þetta árið leggi borgin auk þess aukna áherslu á öryggismál, forvarnir og umhirðu.

mbl.is