Secret Solstice með mjög breyttu sniði í ár

Secret Solstice-tónlistarhátíðin verður fjölskylduvænni í ár, ef marka má orð …
Secret Solstice-tónlistarhátíðin verður fjölskylduvænni í ár, ef marka má orð forseta borgarráðs. mbl.is/Valli

Secret Solstice verður haldin í Laugardalnum í sumar, að sögn skipuleggjanda hátíðarinnar. Undirbúningur á svæðinu er þegar hafinn og um helgina var fjölmennt lið framleiðenda á svæðinu að teikna upp skipulag.

„Hátíðin verður,“ staðfestir Víkingur Heiðar Arnórsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, í samtali við mbl.is.

Hún verður þó með mjög breyttu sniði, að sögn Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, formanns borgarráðs. Í samtali við mbl.is segir hún þó allt benda til þess að hátíðin verði haldin. Það kemur sennilega í ljós á fimmtudaginn á fundi borgarráðs.

Engin næturpartý

„Hátíðin er fjölskylduvænni. Hún er styttri og ekki inn í nóttina og stendur bara til hálftólf á kvöldin. Hún er ekki í Laugardalshöll, það verða engin næturpartý og hún stendur í færri daga, þrjá í stað fjögurra,“ segir Þórdís Lóa að sé meðal skilyrða í nýjum samningi.

„Síðan er borgin að leggja mikla áherslu á öryggisatriði, umhirðu og forvarnir. Allt þetta stendur skrifað í samningnum og því hefur verið tekið vel af tónleikahöldurum,“ segir Þórdís Lóa. „Hljóðið er jákvætt og hátíðin er með gjörbreyttu sniði, fyrst og fremst til að mæta umsögnum og tillögum hagaðila, svo sem foreldrafélaga, íbúa og félagasamtaka í Laugardalnum,“ segir hún þá.

Skuldin verður greidd

Tvísýnt var um tíma um stöðu hátíðarinnar gagnvart Reykjavíkurborg og hátíðin var sögð skulda borginni 10 milljónir. Nýir eigendur hafa þó tekið við hátíðinni. Þórdís Lóa segir að í samningnum sem liggur fyrir að samþykkja á milli borgarinnar og hátíðarinnar felist þó að þessar skuldir séu greiddar.

„Við höfum aldrei sagt að hátíðin verði ekki haldin. Í þessum samræðum við tónleikahaldara hefur verið uppi á borðum að tónleikahaldarar skulda borginni fé. Það er ein af forsendum fyrir því að hátíðin verði haldin, að það sé borgað,“ segir hún. Það verði gert.

Um tíma voru menn farnir að orða sveitarfélög á landsbyggðinni við hátíðina en af þeim áformum verður greinilega ekki, þar sem þessi samningur virðist ætla að ganga í gegn. „Þetta er allt einn stór samningur og að borga skuldina er partur af honum, rétt eins og hið nýja snið sem verður haft á hátíðinni er það,“ segir Þórdís Lóa.

Verða við skilyrðum borgarinnar

Víkingur Heiðar segir í samtali við mbl.is að vilyrði frá borginni um að halda hátíðina hafi legið fyrir í september í fyrra. „Við höfum verið í nánu sambandi við Reykjavíkurborg síðan og er verið að ganga frá lokaatriðum samningsins.  Borgin hefur sett ákveðin skilyrði sem snúa að hátíðinni og við þeim hefur verið orðið að fullu,“ segir hann.

Um skuldina segir hann að félagið sem eigi og reki hátíðina í dag sé skuldlaust félag. „Ekkert slíkt mun koma í veg fyrir að hátíðin fari fram,“ segir hann.

Hann segir að miðasalan sé í góðum gír þar sem flestir viti að hátíðin verði. Von sé á frekari tilkynningum: „Síðar í þessari viku munum við koma með lokatilkynningu um enn fleiri listamenn sem munu koma fram á hátíðinni,“ segir hann loks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert