Var umsóknin dregin til baka?

AFP

Hefur umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið, sem afhent var sambandinu af þáverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sumarið 2009, verið dregin til baka eða er hún enn í fullu gildi? Samkvæmt skýrslu sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér í apríl á síðasta ári, um framkvæmd EES-samningsins, hefur einungis verið gert hlé á umsóknarferlinu. Þá hefur ítrekað komið fram bæði í máli talsmanna Evrópusambandsins og gögnum frá stofnunum þess að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið hafi ekki verið formlega dregin til baka.

Forsaga málsins er sú að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sótti um inngöngu í Evrópusambandið sumarið 2009 þó ljóst væri að flokkarnir væru ósammála um að rétt væri að ganga í sambandið. Málið reyndist einkum VG erfitt og kostaði flokkinn meðal annars nokkra þingmenn á kjörtímabilinu sem stjórnin sat en því lauk 2013. Ríkisstjórnin gerði loks hlé á umsóknarferlinu í byrjun þess árs í aðdraganda þingkosninganna þá um vorið.

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir þegar þau voru í …
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir þegar þau voru í forsvari fyrir ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sem tók við eftir kosningarnar 2013, gerði tilraun til þess að draga umsóknina til baka á Alþingi á fyrri hluta árs 2014 en féll síðan frá þeim áformum. Til stóð að gera aðra tilraun til þess ári síðar en þess í stað var tekin ákvörðun í ríkisstjórninni um að senda bréf til Evrópusambandsins þess efnis að íslensk stjórnvöld hefðu engin áform um að Ísland gengi í sambandið og litu því svo á að ekki bæri lengur að líta á landið sem umsóknarríki.

Hefur ekki verið formlega dregin til baka

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa hins vegar aldrei tekið undir það að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið hafi verið dregin til baka. Þvert á móti hafa þeir sagt það ekki hafa verið gert formlega. Þetta hefur einnig komið fram í gögnum á vegum Evrópusambandsins á undanförnum árum. Þannig lýsti til að mynda Maja Kocijancic, þáverandi talsmaður stækkunarstjóra framkvæmdastjórnar sambandsins, þessu yfir á blaðamannafundi sem fram fór í Brussel í mars 2015.

„Ríkisstjórn Íslands hefur ekki með formlegum hætti dregið til baka [umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið]. Hún hefur frestað viðræðum um tvö ár. Ef ákveðið verður við lok þessa tveggja ára tímabils að draga til baka umsóknina verða þeir að senda ósk um það til ráðherraráðsins sem tæki viðeigandi ákvörðun,“ sagði Kocijancic spurð um þýðingu bréfs ríkisstjórnarinnar.

Með skírskotun til tveggja ára tímabils í svari Kocijancic má ætla að hún hafi með því verið að vísa í það sem eftir var af því kjörtímabili sem þá stóð yfir. Kocijancic var spurð hvort gert hefði verið hlé á umsóknarferlinu að mati Evrópusambandsins eða hvort ferlinu hefði verið hætt og hefja þyrfti það frá grunni ef til þess kæmi. Sagði Kocijancic einungis hlé hafa verið gert sem fyrr segir.

Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra þegar umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið …
Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra þegar umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið var afhent sambandinu sumarið 2009. AFP

Þessi sama afstaða kom fram í máli Margaritis Schinas, talsmanns Jean-Claudes Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í samtali við fjölmiðla í mars 2015 í kjölfar bréfs ríkisstjórnar Íslands til sambandsins þar sem hann sagði meðal annars: „Þegar staðan varð erfið vildi Ísland inngöngu [í Evrópusambandið], núna vilja þeir gera hlé, það er í lagi.“

Hliðstæð ummæli lét Matthias Brinkmann, þáverandi sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, falla í viðtali við Morgunblaðið í nóvember 2015 þar sem hann sagði að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið væri mögulega enn fyrir hendi. Óvíst væri hvort hún væri fallin úr gildi og því hugsanlegt að ný ríkisstjórn gæti hafið umsóknarferlið á ný þar sem frá var horfið.

Morgunblaðið ræddi ennfremur við ónafngreindan embættismann hjá Evrópusambandinu í desember sama ár sem sagði líkt og Kocijancic að Íslendingar hafðu lagt fram formlega umsókn um inngöngu en engin formleg beiðni hefði hins vegar borist frá Íslandi um afturköllun hennar. Umsóknin hefði því ekki verið dregin til baka, en Evrópusambandið tæki einungis afstöðu til formlegra erinda.

Umsóknarríki ekki það sama og umsóknarríki

Hafa þarf í huga í þessu sambandi hvernig umsóknarferlið að Evrópusambandinu virkar. Ríki sem sendir inn umsókn um inngöngu í sambandið er skilgreint sem „applicant country“. Samþykki ráðherraráð Evrópusambandsins umsóknina verður ríkið „candidate country“. Ekki hefur verið gerður greinarmunur á þessum tveimur stigum ferlisins hér á landi og í báðum tilfellum rætt um umsóknarríki.

Guðlaugur Þór Þórðarson er utanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins …
Guðlaugur Þór Þórðarson er utanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Stefna stjórnarinnar er að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram kemur þannig til dæmis í upplýsingariti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um umsóknarferlið að umsóknarríkið (e. applicant) sendi umsókn sína til ríkisins sem fer með forsætið í ráðherraráði sambandsins. Framkvæmdastjórnin geri síðan frumathugun á umsóknarríkinu og sendi niðurstöðu sína til ráðherraráðsins. Í ljósi álits framkvæmdastjórnarinnar ákveði ráðherraráðið hvort líta eigi á umsóknarríkið (e. applicant) sem umsóknarríki (e. candidate country). Ráðherraráðið geti einnig sett ákveðin skilyrði sem þurfi að uppfylla áður en aðildarviðræður geti hafist.

Bréfið sem þáverandi ríkisstjórn sendi til Evrópusambandsins árið 2015 sagði að ekki bæri að líta lengur á Ísland sem „candidate country“ og var landið í kjölfarið tekið af lista sambandsins yfir slík ríki á vefsíðu þess. Miðað við umsóknarferli Evrópusambandsins er hins vegar ljóst að umsókn ríkis getur verið í fullu gildi þó það sé ekki „candidate country“. Viðkomandi ríki er þá „applicant“.

„Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki formlega dregið umsóknina [um inngöngu í Evrópusambandið] til baka tók forsæti ráðherraráðs Evrópusambandsins mið af bréfinu og ákveðnar hagnýtar aðlaganir hafa verið gerðar bæði innan ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Til samræmis við það lítur sambandið, eins og sakir standa, ekki á Ísland sem umsóknarríki (candidate country),“ segir á upplýsingavefsíðu þings Evrópusambandsins um Evrópska efnahagssvæðið, Sviss og norðurslóðir.

Hefur ekki „orðið var við þá túlkun“ hjá ESB

Hvergi á vefsíðum Evrópusambandsins, eða í öðru útgefnu efni á vegum þess, er tekið undir það sjónarmið að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið hafi verið dregin til baka. Í kjölfar bréfs ríkisstjórnarinnar 2015 var Ísland tekið út af listum yfir „candidate countries“ á vefsíðum Evrópusambandsins samkvæmt ósk íslenskra stjórnvalda. Ísland er þrátt fyrir það enn nefnt til sögunnar á vefsíðum sambandsins um stækkunarmál þess með beinni tilvitnun í bréf ríkisstjórnarinnar um að ekki bæri að líta á Ísland sem „candidate country“.

Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins …
Gunnar Bragi Sveinsson var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þegar bréf var sent til ESB þess efnis að ekki bæri lengur að líta á Íslands sem umsóknarríki að sambandinu. mbl.is/Árni Sæberg

Vakin var athygli á málinu á Alþingi í umræðum um skýrslu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál 30. apríl þar sem Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, benti á að í skýrslu fyrir Evrópuráðið (ekki tengt Evrópusambandinu) í janúar kæmi fram að Evrópusambandið liti ekki svo á að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið hefði verið formlega dregin til baka. Spurði hann utanríkisráðherra hvort ekki væri ástæða til þess að koma skýrari skilaboðum til Evrópusambandsins og taka af allan vafa um að umsóknin hefði verið dregin til baka fyrst ekki hefði betur tekist til í fyrstu tilraun.

„Ég veit ekkert um þetta,“ svaraði Guðlaugur Þór en bætti því við að Ísland væri hins vegar ekki á leið inn í Evrópusambandið undir hans forystu. Það væri ráðamönnum í Brussel vel kunnugt um. Sagðist hann aukinheldur ekki hafa „orðið var við þá túlkun hjá Evrópusambandinu“ að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið hefði ekki verið formlega dregin til baka. Ítrekaði hann ennfremur að hann hefði ekki verið utanríkisráðherra þegar gengið hefði verið frá málinu á sínum tíma.

Segir „algert hlé“ hafa verið gert á viðræðunum

Líkt og fram kemur í upphafi þessarar umfjöllunar er tekið undir það í skýrslu utanríkisráðuneytisins um EES-samninginn, sem kom út í apríl á síðasta ári, að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið hafi ekki verið dregin til baka heldur aðeins verið gert hlé á viðræðunum við sambandið (sem eru hluti af umsóknarferlinu og hefjast ekki fyrr en ríki hefur verið samþykkt sem „candidate country“).

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um …
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um stöðu umsóknarinnar um inngöngu í ESB. Ljósmynd/Miðflokkurinn

„Tveimur árum síðar [eftir að ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við völdum vorið 2013] kunngerði ríkisstjórnin ESB að gert hefði verið algert hlé á viðræðunum og væri ekki litið svo á að Ísland væri umsóknarríki,” segir í umræddri skýrslu ráðuneytisins um framkvæmd EES-samningsins sem Guðlaugur Þór ritar formálann að.

Málið var einnig rætt á Alþingi 8. maí 2018 þar sem Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins sem var utanríkisráðherra þegar títtnefnt bréf var sent til Evrópusambandsins 2015, spurði ráðherrann hvað „algert hlé“ væri. Guðlaugur svaraði: „Hvað varðar orðalag í skýrslum geri ég ráð fyrir að þetta sé tekið upp í takti við það orðalag sem var til staðar þegar menn gengu frá þessu. Ég var ekki þar í embætti utanríkisráðherra.“

Miðað við það sem hér hefur verið rakið er ljóst að um samdóma álit Evrópusambandsins og utanríkisráðuneytis Íslands er að ræða þess efnis að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið, sem send var til forystumanna þess af þáverandi ríkisstjórn vinstriflokkanna sumarið 2009, hafi ekki verið dregin formlega til baka heldur hafi einungis verið gert hlé á umsóknarferlinu. Ennfremur að það er staðföst og margítrekuð afstaða Evrópusambandsins að umsóknin sé enn til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert