Stefna Sósíalistaflokksins samþykkt

Sanna Magdalena, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, í mótmælagöngu.
Sanna Magdalena, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, í mótmælagöngu. mbl.is/Eggert

Á þingi Sósíalistaflokksins í Bíó Paradís í dag var samþykkt stefna flokksins í mennta-, velferðar og vinnumarkaðsmálum.

Fram kemur í tilkynningu að menntastefnan fangi vel skólann sem samfélagslegt verkefni með áherslu á að skólinn á öllum skólastigum sé gjaldfrjáls að öllu leyti. Þá sé markmiðið að skólinn sé stéttlaus, lýðræðisvitund efld og komið á algjöru jafnræði til náms.

Stefna flokksins í velferðarmálum leggur áherslu á útrýmingu fátæktar og réttlátri skiptingu gæða. Að velferðarkerfið mótist að þörfum notenda með áherslu á efnahagslegan jöfnuð. Þá sé sérstaklega hugað að réttindum barna í stefnunni. Einnig er í stefnunni hugað að réttindum innflytjenda og flóttafólks auk þess sem stefnt er að afglæpavæðingu fíknisjúkdóma.

Stefnan í vinnumarkaðsmálum leggur áherslu á manngildi, reisn og öryggi með sérstakri áherslu á launajöfnuð og upplýsingaflæði. Þá er hópum sem búa við valdaleysi og ósýnileika sérstaklega gefinn gaumur og ítrekað að tryggja þurfi aðgerðaráætlun og viðurlög við því sem miður fer. Þá sé vinnuvikan stytt og atvinnulífið gert fjölskylduvænna.

mbl.is