Björn fór „ósæmilegum orðum“ um Ásmund

„Ég segi þessi orð með fullri vitneskju um að þau …
„Ég segi þessi orð með fullri vitneskju um að þau hafi verið dæmd sem brot á siðareglum þingmanna. Við vitum það hins vegar öll hérna inni, að þau eru sönn,“ sagði Björn Leví Gunnarsson á Alþingi í dag undir dagskrárliðnum „störf þingsins“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi í dag fór Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata með nákvæmlega þá setningu sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, var dæmd brotleg fyrir hjá siðanefnd. Steingrími J. Sigfússyni, forseta þingsins, gramdist framkoman og sagði Björn fara ósæmilegum orðum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

„Ég nota nú orð sem allir skilja og þar á meðal siðanefnd: Nú er rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að verið sé að setja á fót rannsókn á þeim efnum,“ sagði Björn Leví í ræðu sinni.

„Ég segi þessi orð með fullri vitneskju um að þau hafi verið dæmd sem brot á siðareglum þingmanna. Við vitum það hins vegar öll hérna inni, að þau eru sönn,“ sagði Björn Leví. „Fyrir því liggur játning og staðfesting í frávísun forsætisnefndar. Þess vegna er þetta rökstuddur grunur í allri merkingu þeirra orða. Ef við getum gerst brotleg við siðareglur fyrir að segja sannleikann, þá er voðinn vís,“ klykkti Björn Leví út með.

Bjallan glumdi í sömu mund og Steingrímur J. Sigfússon forseti þingsins sagði: „Forsetinn telur þessa notkun dagskrárliðarins ekki við hæfi.“

Hvernig var þetta ekki við hæfi?

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata kom stundu síðar í pontu og hnaut um það hvað „hafi ekki verið við hæfi“ við ræðu Björns Leví. Svar Steingríms var á þessa leið: „Þannig er að í liðnum störf þingsins er sérstaklega gert ráð fyrir því að þingmenn geti átt orðaskipti við aðra þingmenn […] En þá eru það mannasiðir að láta viðkomandi þingmann vita og þá er hann settur á mælendaskrá næstur á eftir þeim sem á orðastað við hann. Þetta gerði háttvirtur þingmaður Björn Leví Gunnarssson ekki,“ sagði Steingrímur, alvarlegur í bragði.

Steingrímur sagðist hafa farið mildum höndum í viðurlögum við þeirri hegðun Björns Leví. „Hann [Björn] notaði dagskrárliðinn störf þingsins til að fara mjög ósæmilegum orðum um annan háttvirtan þingmann. Í 93. grein þingskapa segir: ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands, eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umræðuefninu þá getur forseti gripið til þeirra ráða sem þar er nánar fjallað við,“ sagði Steingrímur. „Það kaus forseti að gera ekki að þessu sinni, heldur bregðast mildilegar við,“ sagði hann.

„Þá verð ég að tjá skoðun mína aftur“

Björn Leví Gunnarsson er tekinn fyrir í áliti siðanefndar um ummæli Þórhildar Sunnu. Í ræðu sinni benti hann á sem var, hann hafi álitinu ekki verið sagður hafa brotið reglur, „að því er virðist vegna þess að siðanefnd skildi mig ekki. Þau orð sem ég lét falla voru efnis- og innihaldslega nákvæmlega þau sömu og háttvirtur þingmaður Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var dæmd brotleg fyrir,“ sagði Björn í ræðu sinni áðan.

„Vissulega notaði ég ekki nákvæmlega sömu orðin og það getur vel verið að það skipti máli þegar siðanefnd tekur málið fyrir,“ sagði hann.

Nú skyldi hann nota sömu orð:

„Mig langar því að vera eins skýrmæltur og ég get. Vegna álits forsætisnefndar þegar erindi mínu um endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar var vísað frá, þar sem kom fram að Ásmundur Friðriksson hafi vissulega fengið endurgreiðslur frá Alþingi vegna þáttagerðar fyrir ÍNN, að hann hafi fengið endurgreiðslur fyrir notkun á eigin bíl, þrátt fyrir að það var gegn reglum um endurgreiðslur, og vegna þess að Ásmundur játaði að hafa fengið endurgreiðslur vegna prófkjörsbaráttu í eigin flokki, sem er klárlega ekki hluti af starfi hans sem þingmanns, þá verð ég að tjá skoðun mína aftur, þar á meðal siðanefnd: Nú er rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að verið sé að setja á fót rannsókn á þeim efnum,“ sagði Björn Leví í heild í upphafi ræðu sinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert