Nokkrar gráður gætu lyft snjólínunni

Maríuerla er spörfugl og gæti átt erfitt uppdráttar ef það …
Maríuerla er spörfugl og gæti átt erfitt uppdráttar ef það kólnar mikið í lengri tíma á vorin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áfram verður gott veður í dag á Suður- og Vesturlandi. Það kólnar í veðri um helgina og kuldapollur kemur yfir landið á mánudag og þriðjudag. Hitastig gæti farið nálægt frostmarki með slyddu og gráma í fjöllum fyrir norðan í norðanáttinni sem fylgir. Hiti niður að frostmarki nær frá Tröllaskaga og að nyrstu Austfjörðum.  

„Það frystir tæplega á láglendi sunnanlands. Fyrir norðan gæti jörð gránað,“ sagði Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Hann tók fram að ef hitastigið hækkaði aðeins þá gæti slydda breyst í rigningu og því þyrftu breytingarnar ekki að verða miklar svo unnt yrði að sleppa við slydduna.

Vonandi færist slyddan fram á næsta vetur

„Nokkrar gráður til eða frá lyfta snjólínunni. Þetta skýrist vonandi betur þegar nær dregur. Í byrjun vikunnar var talað um slyddu um þessa helgi sem færðist svo aftar. Vonandi færist slyddan fram á næsta vetur,“ segir hann léttur í bragði.

„Þetta er ekki fyrsta hretið á þessum árstíma en þetta á ekki eftir að endast svo lengi svo hret er kannski of stórt orð,“ segir hann.

Fuglarnir eru vanir vorhreti

Á þessum árstíma er lífið að kvikna, gróður að spretta og fuglar að fjölga sér. Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir það ekki gott fyrir lífríkið að það frysti á þessum árstíma. Hann óttast ekki að frostið og slyddan í kortunum eigi eftir að hafa áhrif á fuglavarp.

Hins vegar ef kuldakastið varir lengi á þessum árstíma bitnar það á fuglunum. Það fari eftir því á hvaða stað þeir eru það er að segja hvort þeir eru orpnir eða komnir með unga. „Fuglarnir eru vanir þessu. Þeir liggja þá bara á [eggjunum] og láta fenna yfir sig,“ segir hann. Kuldinn er verri ef ungar eru skriðnir úr eggjum.  

Spörfuglar, vaðfuglar og mófuglar eru viðkvæmastir fyrir kulda á þessum árstíma en endur eru duglegar að pluma sig, segir hann spurður hvað fuglategundir eru viðkvæmastir fyrir kulda á þessum árstíma.   

„Það hefur hent að það hafa komið slæm hret og þá drepast fuglar. Við verðum bara að vona það besta. Það er erfitt að segja til um það hvort þetta hafi áhrif,“ segir fuglafræðingurinn.

Sjá nánar á veðurvef mbl.is

Það verður kalt á landinu í næstu viku.
Það verður kalt á landinu í næstu viku. Skjskot/Veðurstofa Íslands
mbl.is