Fái ekki takmarkalausan ræðutíma

Brynjar Níelsson
Brynjar Níelsson mbl.is/Hanna

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fylgjandi því að þingskaparlögum verði  breytt þannig að þingmenn fái ekki takmarkalausan ræðutíma um ákveðin mál eins og raunin hefur verið með umfjöllun Miðflokksmanna um þriðja orkupakkann.

„Þó að ég sé enginn áhugamaður um að takmarka mjög tjáningarfrelsi þingmanna eða málfrelsi þeirra þá verða einhvers staðar að vera mörk. Ég er tilbúinn að gefa rúman tíma í byrjun og þá liggur það fyrir að það er tíminn sem þingmenn fá. En þetta er komið út fyrir einhver mörk að mínu viti og engum til gagns,“ segir Brynjar, sem ræddi við blaðamann að loknum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Brynjar telur að öll mikilvægustu svörin séu komin fram varðandi þriðja orkupakkann. „Ég ber virðingu fyrir skoðunum Miðflokksmanna og ætla ekki að gera lítið úr áhyggjum þeirra en ég er ekki sammála þeim. Ég held að frekari ræður og frekari næturvinna sé óþörf í þessu. Nú verður lýðræðið að fá að ganga sinn gang en menn hafa þennan rétt og nýta hann,“ segir hann.

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, setur spurningarmerki við að endalaus andsvör séu heimiluð við ræður, sama hvar mál eru stödd í ferlinu. „En þetta er bara miklu stærra mál að velta fyrir sér hvernig þingsköp eiga að líta út.  Það þarf að huga vel að rétti manna til að tala á þingi og ég mæli með því að menn setjist yfir þetta allt saman í rólegheitum,“ segir hann.

„Þetta er mjög sérstök staða en svona er hún. Á meðan Miðflokksmenn hafa þörf á að tala við sjálfa sig þá gera þeir það og við hin fylgjumst með eftir áhuga.“

Spurður út í töf á öðrum málum segir hann stöðuna setja störf þingsins í uppnám. „Maður hefur séð að þetta hefur ekki bara áhrif á störfin í þingsalnum heldur alls staðar annars staðar. Ég hef mest velt fyrir mér álaginu sem við erum að setja á okkar góða starfsólk á þinginu en svona er bara staðan. Þeir hafa þetta allt hendi sér og ef þeir telja sig þurfa að hlusta svona mikið hver á annan þá er það þeirra réttur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina