Heimilt að kyrrsetja vegna heildarskulda

mbl.is/Eggert

Þessi úrskurður er enn og aftur staðfesting á túlkun og beitingu á ákvæði loftferðalaga um kyrrsetningu flugvéla fyrir heildarskuldum,“ segir í yfirlýsingu frá Isavia vegna úrskurðar Landsréttar í dag um að fyrirtækinu hafi verið heimilt að kyrrsetja farþegaflugvélina TF-GPA í eigu flugvélaleigunnar ALC.

Farþegaþotan var kyrrsett vegna skuldar WOW air við Isavia upp á tvo milljarða króna en ALC telur það andstætt lögum og hafa lögmenn flugvélaleigunnar til skoðunar að fara kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Isavia segir að þannig sé staðfest að heimilt sé að kyrrsetja flugvélar vegna heildarskulda eigenda eða umráðanda.

„Samskonar ákvæði er til staðar í fjölda landa, þar á meðal í Bretlandi og Kanada þar sem því hefur verið beitt. Isavia vill ítreka þá staðreynd að eigandi TF-GPA, leigufélagið ALC, getur lagt fram viðunandi tryggingu fyrir skuldinni og þannig fengið flugvélina afhenta þá þegar og komið henni í rekstur aftur,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert