Hjólakraftur hlaut Foreldraverðlaunin

Á myndinni eru Eydís Heiða Njarðardóttir, formaður dómnefndar, Sigrún Edda …
Á myndinni eru Eydís Heiða Njarðardóttir, formaður dómnefndar, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, formaður Heimilis og skóla, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ásamt forsvarsmönnum Hjólakrafts: Þorvaldi Daníelssyni, eiganda Hjólakrafts, Helga Rafni Jósteinssyni, aðstoðarskólastjóra Norðlingaskóla og Örnu Hrönn Aradóttur, formanni foreldrafélagsins Vaðsins og verkefnastjóra lýðheilsu í Árbæ og Grafarholti hjá þjónustumiðstöð. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnið Hjólakraftur í Norðlingaskóla hlaut í dag Foreldraverðlaun samtakanna Heimilis og skóla, en markmið verðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer innan leik-, grunn- og framhaldskóla og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu jákvæðu samstarfi heima, skóla og samfélagins. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag.

Fjölmargar tilefningar bárust frá almenningi, en Hjólakraftur hlaut hnossið að þessu sinni. Verkefnið hófst á vorönn 2016 og hefur það að markmiðið að virkja alla nemendur skólans í hreyfingu í gegnum hjólreiðar og virkja foreldra þeirra með. Annað markmið með verkefninu er að ná til þeirra nemenda sem eru vanvirkir í skólaíþróttum, búa við erfiðar félagslegar aðstæður eða þeirra sem eru nýir íbúar í Reykjavík með erlendan bakgrunn.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í blíðskaparveðri í dag.
Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn í blíðskaparveðri í dag. Ljósmynd/Aðsend

Dómnefnd verðlaunanna sagði verkefnið stuðla að „bættri lýðheilsu íbúa og foreldrra nemenda í úthverfi Reykjavíkurborgar í gegnum hjólreiðar“ og að verkefnið falli vel að markmiðum um heilsueflingu og umhverfisvæna lífshætti auk þess sem allir eigi kost á að taka þátt, óháð efnahag.

„Verkefnið eykur enn fremur félagsfærni og tengir saman ólíka einstaklinga í gegnum hjólreiðar,“ sagði dómnefnd.

Lestrarvinir og Þollóween fengu hvatningarverðlaun

Heimili og skóli veittu einnig tvenn sérstök hvatningarverðlaun til tilnefndra verkefna, en þau féllu í skaut verkefnisins Lestrarvina í Víðistaðaskóla og Þollóween, sem er bæjarhátíð í Þorlákshöfn.

Lestrarvinir er samstarfsverkefni Víðistaðaskóla við Hrafnistu í Hafnarfirði og felst verkefnið í því að nemendur í 6. bekk skólans eiga sér lestrarvini úr hópi heimilisfólks á Hrafnistu og fara þangað reglulega og lesa fyrir vini síni sína af eldri kynslóð.

Lestrarvinir í Víðistaðaskóla og Hrafnista í Hafnarfirði hlutu hvatningarverðlaun
Lestrarvinir í Víðistaðaskóla og Hrafnista í Hafnarfirði hlutu hvatningarverðlaun Ljósmynd/Aðsend

„Verkefnið hefur verið við lýði síðan 2014 og tengir saman kynslóðir. Það fellur vel að markmiðum lestrarkennslu og stuðlar að jákvæðum tengslum við nærsamfélagið,” segir í umsögn dómnefndar um Lestrarvini.

Þollóween er bæjarhátíð sem haldin var í fyrsta skipti síðasta haust. Hópur foreldra barna við Grunnskólann í Þorlákshöfn stóð að verkefninu, sem var unnið í samstarfi þeirra, skólans og stofnana í samfélaginu, án allra styrkja og með miklu sjálfboðastarfi og vakti mikla lukku í bæjarfélaginu. Hátíðin samanstóð af fjölda hrekkjavökutengdra viðburða sem dreifðust yfir heila viku.

„Hópurinn lagði á sig mikla vinnu og náði að skapa samheldni, samvinnu og skemmtun fyrir alla bæjarbúa en sérstaklega börn og fjölskyldur þeirra,“ segir í umsögn dómnefndar um Þollóween.

Bæjarhátíðin Þollóween í Þorlákshöfn hlaut einnig hvatningarverðlaun Heimilis og skóla
Bæjarhátíðin Þollóween í Þorlákshöfn hlaut einnig hvatningarverðlaun Heimilis og skóla Ljósmynd/Aðsend

Jolanta er Dugnaðarforkur ársins

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019 er Jolanta Krystyna Brandt en hún er pólsk að uppruna. Hún hefur að sögn samtakanna náð góðum tökum á íslensku og verið drífandi í allri samvinnu milli heimila og skóla í Dalvíkurbyggð og leggur mikinn metnað í öll störf sem hún tekur sér fyrir hendur.

„Hún hefur gegnum tíðina hvatt aðra foreldra til þátttöku í ýmsum verkefnum og námskeiðum m.a. íslenskunámi og verið óeigingjörn á að túlka og þýða fyrir aðra foreldra og nemendur. Jolanta hefur starfað sem stuðningsfulltrúi í Dalvíkurskóla frá haustinu 2013 og lauk hún námi sem stuðningsfulltrúi vorið 2015.

Jolanta Krystyna Brandt er Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019.
Jolanta Krystyna Brandt er Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Jolanta hefur verið formaður foreldrafélags Dalvíkurskóla frá hausti 2017 og unnið óeigingjarnt starf í þágu skólans. Eftirtektarvert er hversu viljug Jolanta er að bæta við sig þekkingu og miðla henni til skólans, annara foreldra og samfélagsins alls. Jolanta er foreldri sem er virk í samvinnu skóla og heimila, bæði í leik- og grunnskóla. Í tilnefningu segir að hún sé drífandi og hvetji aðra til þátttöku í skólasamfélaginu,“ segir í fréttatilkynningu frá Heimili og skóla um verðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert