Lögreglumaður sleginn í Garðabæ

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ýmsum verkefnum í nótt. mbl.is/Eggert

Lögreglu barst í gærkvöldi tilkynning um ágreining sambúðarfólks í húsi í Garðabæ og er lögregla kom á staðinn um kl. 23, réðst konan á lögreglumann og sló hann. Hún var handtekin í kjölfarið og eyddi nóttinni í fangageymslu lögreglu.

Þetta er á meðal verkefna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu minntist á í orðsendingu sinni til fjölmiðla í morgun, en mörg verkefni næturinnar tengdust ölvun, eins og gjarnan er um helgar.

Ungur maður í annarlegu ástandi var handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur á þriðja tímanum í nótt, þar sem hann var með ónæði. Við handtökuna reyndi maðurinn að bíta lögreglumann í fótinn, en ungi maðurinn fékk í kjölfarið að sofa úr sér í fangageymslu lögreglu.

Á níunda tímanum í gærkvöldi var erlendur maðuri handtekinn í Kópavogi, en þar var hann búinn að koma sér fyrir í kjallara íbúðarhúss, án leyfis húsráðenda. Hann var handtekinn, grunaður um húsbrot, og dvelur nú í fangageymslu lögreglu á meðan að málið er til rannsóknar.

Ölvun í umferðinni

Að venju hafði lögreglan svo hendur í hári nokkurra ökumanna, sem voru á ferðinni um höfuðborgarsvæðið í misgóðu ástandi til aksturs. Tvö umferðaróhöpp áttu sér stað, annað í Mosfellsbæ á sjötta tímanum í gærdag og hitt á ellefta tímanum í gærkvöldi á Suðurlandsvegi í Árbæ, en í báðum tilfellum voru ökumennirnir ekki í ástandi til aksturs sökum ölvunar eða fíkniefnanotkunar.

Fjórir ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir og eru grunaðir um ýmist ölvunarakstur eða fíkniefnaakstur. Einn þeirra, sem stöðvaður var í Breiðholti á fimmta tímanum í nótt, var einnig á fjórum nagladekkjum og verður sektaður fyrir notkun þeirra.

mbl.is