Ekki horft til 4. orkupakka

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í ræðustól.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í ræðustól. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki liggur fyrir „fullnægjandi sviðsmynd“ um það hvernig fari, verði þriðji orkupakkinn samþykktur og sæstrengur lagður í framtíðinni. Þetta segja þingmenn Miðflokksins sem hafa andmælt innleiðingu þriðja orkupakkans undanfarna daga og nætur á Alþingi.

Í málflutningi sínum hafa þingmenn gert fjölda athugasemda við innleiðingu þriðja orkupakkans eins og hún liggur fyrir þinginu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, vísar m.a. til þess að stjórnlagadómstóll í Noregi taki innleiðingu orkupakkans þar í landi til umfjöllunar í haust og að ekki hafi verið tekið tillit til fjórða orkupakkans sem ráðherraráð ESB samþykkti í síðustu viku. Miðflokkurinn vill að málið fari aftur fyrir sameiginlegu EES-nefndina, eða að beðið verði með innleiðinguna fram á haust.

Engin ástæða til að bíða

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að dómsmálið fyrir norska stjórnlagadómstólnum varði túlkun á norsku stjórnarskránni og hvort taka hefði átt ákvörðun með auknum meirihluta norska þingsins varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans í samræmi við ákvæði norsku stjórnarskrárinnar.

„Íslenska stjórnarskráin inniheldur ekkert slíkt ákvæði og innanlandsdeildur Norðmanna um túlkun á þeirra eigin stjórnarskrá hafa enga þýðingu varðandi þinglega meðferð þriðja orkupakkans hér á landi, enda höfum við okkar eigin stjórnarskrá og byggjum okkar málsmeðferð á íslenskum lögum,“ segir Áslaug Arna sem segir að öllum steinum hafi verið velt við skoðun málsins og engin ástæða sé til þess að bíða með málið fram á haust. Þaðan af síður að beina því aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, áætlar að þingstörf séu viku á eftir áætlun vegna mikilla umræðna um orkupakkann. Vaxandi óþol sé gagnvart málþófi í þinginu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »