Skýrsla nýtist við væntanlega sameiningu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar útkomu skýrslu Seðlabankans um neyðarlánið.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar útkomu skýrslu Seðlabankans um neyðarlánið. mbl.is/Hari

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar því að fram sé komin skýrsla um það hvað fór fram þegar Seðlabankinn veitti Kaupþingi þrautavaralán 6. október 2008. Hún segir skynsamlegt að fara vel yfir skýrsluna.

„Það er ágætt að skýrslan sé komin fram því hún hefur verið boðuð síðan 2015,“ segir Katrín í samtali við mbl.is um málið. „Ég held að það sé mikilvægt að við förum yfir skýrsluna og könnum hvort þar sé eitthvað sem við þurfum að taka sérstakt tillit til í framtíðinni,“ segir Katrín.

Hún segir að skýrslan geti skipt máli þegar kemur að því að undirbúa samruna Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins. „Það kom fram af hálfu Seðlabankans að þau telja að við getum dregið lærdóm af skýrslunni, þannig að við munum að sjálfsögðu fara yfir hana, ekki síst þar sem framundan eru breytingar á lögum um Seðlabanka, með sameiningu Seðlabanka og fjármálaeftirlits,“ segir Katrín.

„Ég hef ekki náð að lesa skýrsluna nákvæmlega en við munum að sjálfsögðu fara yfir hana í forsætisráðuneytinu. Ekki fyrir löngu var beint til mín spurningu um skýrsluna þar sem ég ítrekaði það einmitt að Seðlabankinn myndi skila henni af sér,“ segir ráðherrann jafnframt en útgáfu skýrslunnar hefur ítrekað verið slegið á frest af Seðlabankanum.

Spurð hvort áframhaldandi uppgjör á efnahagshruninu og eftirmálum þess sé aðkallandi segir Katrín að með rannsóknarskýrslu Alþingis hafi þegar fengist nokkuð skýr heildarmynd. „En það hefur verið mikil eftirspurn eftir þessari skýrslu bæði af hálfu fjölmiðla og á Alþingi og ég hef fengið fyrirspurnir um hana í vetur,“ segir Katrín.

Hvort veiting neyðarlánsins hafi dregið dilk á eftir sér inn í ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á árunum eftir hrun segir Katrín að málið hafi verið pólitískt umdeilt. „Þetta var auðvitað til umræðu á Alþingi á því kjörtímabili. Þetta var mikið rætt, kannski ekki í ríkisstjórn, en á vettvangi Alþingis og hefur verið æ síðan. Þetta hefur verið í pólitískri umræðu síðan 2008,“ segir Katrín. „Það er því ágætt að skýrslan sé komin fram, því hún hefur verið boðuð síðan 2015,“ segir hún loks.

mbl.is

Bloggað um fréttina