Fórnaði ekki vinskap fyrir tölur á blaði

Sunneva Björk Birgisdóttir er dúx MS í vor. Hún hlaut …
Sunneva Björk Birgisdóttir er dúx MS í vor. Hún hlaut 9,83 sem er hæsta lokaeinkunn í 50 ára sögu skólans. Ljósmynd/Aðsend

„Það skipti miklu máli fyrir mig að útiloka ekki félagslífið. Það þarf að vera jafnvægi í þessu. Ég hefði aldrei viljað fórna félagslífinu, æfingunum og að eignast góða vini til að fá góða tölu á blaði. Þó er samt mjög gaman að fá góða tölu og viðurkenningu,“ segir Sunneva Björk Birgisdóttir dúx Menntaskólans við Sund í ár.

Hún gerði sér lítið fyrir og var með 9,83 í meðaleinkunn af félagsfræðibraut á hagfræði- og stærðfræðilínu. Þetta er hæsta lokaeinkunn í 50 ára sögu skólans. Hún fékk auk þess 9 viðurkenningar fyrir frammúrskarandi árangur á önn og fyrir skólaárin þrjú. Alls var 151 nemandi brautskráður frá MS.

Sunneva var á sundlaugabakkanum að sóla sig í Króatíu þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hennar í morgun. Hún var í langþráðri útskriftaferð og ekki annað að heyra en hún hafi notið þess að hvíla hugann og skemmta sér í góðra vina hópi.

Sunneva sagðist ekki hafa haft hugmynd um að meðaleinkunn hennar yrði jafn góð og raun bar vitni. Hún segist aldrei hafa stefnt að því að verða dúx. „Þetta gerðist bara. Ég hef alltaf reynt að gera mitt besta,“ segir hún og bætir við „ég er alin upp við að mamma er ótrúlega dugleg. Hún hefur verið í skóla frá því ég man eftir mér.“ Ætli það eigi ekki við um þær mæðgur að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. 

Á þessum þremur menntaskólaárum var það ekki í boði fyrir Sunnevu að sofa frameftir á morgnana því hún býr í Hveragerði. Hún hefur vaknað alla morgna kl. 6.20 til að keyra yfir Hellisheiði og koma sér á réttum tíma í skólann. Það vafðist ekki fyrir henni. Spurð hvort hún hafi nýtt tímann til að hlusta á námsefni á leiðinni til að innbyrða meiri upplýsingar segist hún ekki hafa gert það. „Nei. Mér fannst gott að hvíla hausinn á meðan og hlusta á tónlist.“

Hún segist líka njóta góðs af því að faðir hennar býr í Mosfellsbæ. Hún hafi gjarnan gist þar sérstaklega þegar hún tók þátt í félagslífinu. 

Ætla fjórar saman í heimsreisu

Í sumar starfar hún á Hrafnistu í Reykjavík með vinkonum sínum þremur. Vinskapurinn skiptir hana augljóslega miklu máli því hún vill frekar keyra hátt í 50 km á hverjum degi til að sækja vinnu með vinkonum sínum. „Mér finnst það þess virði,“ segir hún og brosir. 

Þessar fjórar vinkonur ætla í heimsreisu í febrúar á næsta ári. Þær ætla að ferðast í þrjá mánuði um Asíu og Afríku en eru að vinna að undirbúningi. Hún ætlar að taka sér að minnsta kosti árs frí frá námi. Hún er ekki búin að ákveða hvort lögfræði eða viðskiptafræði verði fyrir valinu. „Ég ætla að láta það ráðast á þessum tíma,“ segir hún. Áður en lengra er haldið með framtíðarplönin er fyrst að njóta alls þess sem Króatía hefur upp á að bjóða.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert