Fimm alvarlega slasaðir eftir flugslys

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út í kvöld eftir að …
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út í kvöld eftir að tilkynning barst um flugvél sem hrapaði norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm eru alvarlega slasaðir eftir að flugvél brotlenti við flugvöllinn í Múlakoti í Fljótshlíð um klukkan hálfníu í kvöld en eldur var þá laus í vélinni. Fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga HSU, ásamt tveimur þyrlum Landhelgisgæslunnar, fór á staðinn.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fluttu slasaða farþega á Landspítalann í Fossvogi. 

Brunavörnum í Rangárvallasýslu barst tilkynning klukkan 20:38 og segir Leifur Bjarki Björnsson slökkviliðsstjóri að um alvarlegt slys sé að ræða. Eldur var í vélinni þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang. 21 slökkviliðsmaður frá Hvolsvelli og fjórir frá Vík í Mýrdal eru á svæðinu, auk fjölmenns liðs sjúkraflutningamanna og lögreglumanna. Leifur Bjarki telur að alls hafi um fimmtíu viðbragðsaðilar verið á vettvangi þegar mest var í kvöld. 

Rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurlandi fer með rannsókn málsins og nýtur aðstoðar rannsóknarnefndar samgönguslysa og tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Jafnframt hefur viðbragðsteymi Rauða kross Íslands verið sent á vettvang til að veita vitnum að atvikinu sálrænan stuðning.

Flugslysið varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð …
Flugslysið varð rétt norðan við flugvöllinn við Múlakot í Fljótshlíð á Suðurlandi um klukkan hálf níu í kvöld. Kort/Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert