Barn á leikskólaaldri í bílnum

Ljósmynd/Lögreglan

Fimm ökumenn voru í vikunni handteknir af lögreglunni á Norðurlandi vestra vegna gruns um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Í einu málanna var barn á leikskólaaldri farþegi í bifreið þar sem ökumaður reyndist vera undir áhrifum fíkniefna og var því barnavernd kölluð til.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar.

Talsverður erill var hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra undanfarna viku og lagði hún meðal annars hald á kannabisefni og stera. Tveir voru handteknir vegna vörslu á þessum efnum.

Um hvítasunnuhelgina voru 86 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem ók hraðast var á 146 km hraða á klukkustund.

mbl.is