Skipulagsbreytingar hjá HR

Nýir sviðs- og deildarforsetar hafa tekið til starfa í Háskólanum …
Nýir sviðs- og deildarforsetar hafa tekið til starfa í Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/HR

Nýir sviðs- og deildarforsetar hafa tekið til starfa í Háskólanum í Reykjavík í samræmi við nýtt skipurit skólans sem nýverið var tekið í gagnið.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir er sviðsforseti nýs samfélagssviðs HR en undir það heyra eru viðskiptadeild, lagadeild, sálfræðideild og íþróttadeild. Ragnhildur hefur verið prófessor við lagadeild frá 2006 og var deildarforseti frá 2014 til 2019. Sérgreinar Ragnhildar eru stjórnskipunarréttur og réttarsaga. Meðfram starfi hjá HR hefur hún m.a. verið formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, í samninganefnd Íslands við ESB og ad hoc formaður í nefnd um dómarastörf auk þess að kenna við Háskólana í Montreal og Ottawa í Kanada og víðar.

Dr. Ragnhildur Helgadóttir, sviðsforseti samfélagssviðs HR.
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, sviðsforseti samfélagssviðs HR. Ljósmynd/HR

Dr. Gísli Hjálmtýsson er sviðsforseti nýs tæknisviðs sem undir heyra tölvunarfræðideild, verkfræðideild og iðn- og tæknifræðideild. Gísli hefur gegnt stöðu deildarforseta tölvunarfræðideildar HR frá árinu 2017. Hann hefur yfir þrjátíu ára reynslu sem frumkvöðull og stjórnandi á sviði upplýsingatækni og nýsköpunar.

Dr. Gísli Hjálmtýsson, forseti tæknisviðs HR.
Dr. Gísli Hjálmtýsson, forseti tæknisviðs HR. Ljósmynd/HR

Gísli hefur verið framkvæmdastjóri og meðal eigenda Thule Investments frá árinu 2004 og leitt fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Gísli lauk B.Sc-gráðu í stærðfræði og tölvunarfræði frá University of Rochester 1992 og doktorsprófi í tölvunarfræði frá University of California, Santa Barbara árið 1995. Eftir doktorspróf starfaði Gísli hjá AT&T Bell Laboratories. Árin 2001-2007 var hann prófessor í tölvunarfræði og forseti tölvunarfræðideildar HR.

Hera Grímsdóttir er deildarforseti nýrrar iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hera hefur starfað sem sviðstjóri byggingasviðs Háskólans í Reykjavík frá árinu 2015 en kennt við háskólann frá árinu 2013, fyrst sem stundakennari. Hún er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík frá 2017 og tók meistaragráðu frá sama skóla í byggingarverkfræði með áherslu á framkvæmdastjórnun árið 2013. Hera lauk B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2004. Hera hefur víðtæka reynslu af úr atvinnulífinu og starfaði hjá EFLU verkfræðistofu frá árinu 2004, fyrst á orkusviði og síðar á sviði verkefnastýringar.

Hera Grímsdóttir, deildarforseti iðn- og tæknifræðideildar HR.
Hera Grímsdóttir, deildarforseti iðn- og tæknifræðideildar HR. Ljósmynd/HR

Dr. Luca Aceto er nýr deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Luca hefur gegnt stöðu prófessors við tölvunarfræðideild HR frá árinu 2004. Frá september 2017 hefur hann einnig gegnt stöðu prófessors við Gran Sasso Science Institute, L'Aquila á Ítalíu og stýrt vísindastarfi og alþjóðlegu doktorsnámi í tölvunarfræði þar. Luca hlaut doktorsgráðu í tölvunarfræði frá University of Sussex árið 1991 og meistaragráðu frá University of Pisa árið 1986. Meginviðfangsefni Luca í rannsóknum tengjast fræðilegum eiginleikum samhliða vinnslu, með áherslu á mál sem lýsa algebrískum ferlum og hvernig slík mál styðja við leiðir til að skilgreina og vinna með kerfi, rökfræði, merkingarfræði og jöfnurökfræði í tölvunarfræði.

Dr. Luca Aceto, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR.
Dr. Luca Aceto, deildarforseti tölvunarfræðideildar HR. Ljósmynd/HR

Dr. Hafrún Kristjánsdóttir tekur við stöðu deildarforseta nýrrar íþróttafræðideildar Háskólans í Reykjavík. Hafrún var skipuð dósent við tækni- og verkfræðideild HR fyrr á þessu ári og hefur gegnt stöðu sviðsstjóra íþróttafræðisviðs frá árinu 2013. Hún lauk doktorsprófi í líf og læknavísindum árið 2015 frá Háskóla Íslands, Cand Psych gráðu í sálfræði 2005 og B.Sc. gráðu í sálfræði frá sama skóla. Hafrún hefur víðtæka og fjölbreytta reynslu innan íþróttahreyfingarinnar og hefur birt fjölda greina á sviði íþróttasálfræði, klínískrar sálfræði og íþróttafræði. Hún hefur á síðustu árum meðal annars leitt eða tekið þátt í rannsóknarverkefnum um höfuðáverka í íþróttum, geðheilsu íþróttamanna, kynjajafnrétti í íþróttum og sálfræðilegra færni íslenskra afreksíþróttamanna.

Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar HR.
Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar HR. Ljósmynd/HR

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsóttir er forseti nýrrar sálfræðideildar. Hún hefur starfað við HR frá árinu 2005, veitt námsbrautum í sálfræði forstöðu og gegnt stöðu dósents og sviðsstjóra sálfræðisviðs frá árinu 2015. Bryndís Björk lauk doktorsprófi í sálfræði árið 2011 frá Institute of Psychiatry, King's College London, meistaragráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og B.Sc. gráðu í sálfræði frá sama skóla árið 1999. Bryndís Björk hefur birt fjölda vísindagreina í alþjóðlegum ritum um geðheilsu og áhrif streituvaldandi atburða og reynslu á líðan og hegðun ungmenna. Þá hefur hún rannsakað verndandi þætti í lífi ungs fólks sem hefur verið beitt kynferðislegu ofbeldi eða heimilisofbeldi og hvernig bæta má lífsánægju og vellíðan. Hún hefur stundað rannsóknir við Rannsóknir og greiningu frá árinu 1999 og gegndi starfi framkvæmdarstjóra þar á árunum 2000 til 2002. 

Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, forseti sálfræðideildar HR.
Dr. Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, forseti sálfræðideildar HR. Ljósmynd/HR
mbl.is