Deildu um deilur um dagskrá

Ekkert er víst með þinglok enn og er óánægja með …
Ekkert er víst með þinglok enn og er óánægja með dagskrá þingsins meðal þingmanna minnihlutans ef marka má orð Halldóru Mogensen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það verður hér augljósara og augljósara að það á ekki að hafa neitt samráð við okkur um þessa dagskrá,“ sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um fundarstjórn forseta. Hún sagði að með því að taka fiskeldi á dagskrá væri verið að brjóta samkomulag um að bíða með umdeild mál þar til væri búið að semja um þinglok.

Hófst liðurinn á því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók til máls um fundarstjórn forseta og beindi því til forseta að fresta fundar vegna heimsóknar forseta Þýskalands. Sagði hún ekki tækt að hefja umræður um jafn umdeilt mál og fiskeldi á meðan ekki hafi fengist samkomulag um dagskrá þingsins.

„Nú er verið að misnota þá stöðu sem er í þinginu, þar sem óskað er eftir eðlilegum og kurteislegum þingstörfum undir heimsókn forseta Þýskalands, til þess að setja umdeilt mál á dagskrá. Sem gengur þvert á það eina samkomulag sem þó hefur náðst á milli meirihluta og minnihluta,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.

Birgir Ármannsson.
Birgir Ármannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki um illvilja að ræða

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, kvaðst telja það líklegt að allir átti sig á því að flókið væri að koma á samningum um þinglok. „Í því er ekki fólgin neinn illvilji. Allir eru að reyna sitt besta í þeim efnum.“

Komu fleiri þingmenn minnihlutans og kvörtuðu undan dagskránni. Hófst síðan umræða um fiskeldi.

Í samtali við mbl.is segir Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að fundað hafi verið talsvert að undanförnu milli formanna flokkanna og þingflokkanna en að samningaviðræðurnar um möguleg þinglok séu mjög flóknar.

Segir hann aðila geta komið sér saman um einstök efnisatriði en erfitt er að skapa samkomulag um heildarmyndina, meðal annars sökum þess að minnihlutinn er ekki samstíga í viðræðum.

Spurður hvort þingstörf haldi áfram þar til málaskrá tæmist náist ekki samningur um þinglok, svarar Birgir að það geta gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert