Vegirnir „stórt viðbótarverkefni“

Sigurður Ingi Jóhannsson segir að umferðin á vegunum á Suðurlandi …
Sigurður Ingi Jóhannsson segir að umferðin á vegunum á Suðurlandi sé meiri en nokkur sá fyrir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fjölgunin er sláandi en hún er líka lýsandi fyrir umferðaraukninguna á vegum sem voru ekki byggðir fyrir svona mikinn fjölda,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra inntur eftir viðbrögðum við mikilli fjölgun banaslysa í bílaumferð á Suðausturlandi síðustu 5 ár.

Fram kom á mbl.is í gær að árin 2007 til 2012 hafi tveir látist í bíl­slys­um frá Mýr­dals­jökli aust­ur að Höfn en 17 árin 2013 til 2018. Umferðin um þessi svæði hefur margfaldast, til að mynda fari minnst 2.000 manns um Reynisfjall daglega, ef ekki þrjú eða fjögur þúsund, segir Sigurður Ingi.

Sigurður segir að nú sé verið að bregðast sérstaklega við fjölgun banaslysa á slæmum köflum. „Ein af þeim aðgerðum er að lækka umferðarhraða yfir allar þessar einbreiðu brýr og að merkja betur,“ segir hann. „Satt best að segja er alveg ótrúlegt hvað margir keyra ótrúlega hratt á vegum sem ekki eru fyrir það búnir. Það er hætta í sjálfu sér og meiri sýnileiki lögreglunnar hjálpar í þeim efnum,“ segir ráðherrann, spurður hvort ekki þurfi að bæta í gæslustarf á svæðunum.

Sigurður segir að þó að megináherslan í samgönguáætlun liggi ekki á þessum svæðum, séu þau engu síður „stórt viðbótarverkefni“. „Þetta er erfið áskorun á meðan við erum ekki búin með grunnnetið á Íslandi, því við erum með sérstakar áherslur á að klára vegi á suðurfjörðum Vestfjarða og einnig á að takast á við umferðarþungann í Reykjavík en þetta svæði er þá viðbótarverkefni. Og það er stórt,“ segir hann.

„Það hefur orðið gríðarleg umferðaraukning á öllum vegum á Suðurlandi, sérstaklega á sjálfum Suðurlandsveginum, alveg austur að Höfn, að minnsta kosti að Jökulsárlóni,“ segir Sigurður. Á sama tíma hafi umferðin vestan við, að Vík, aukist mjög. „Þetta er umferð sem enginn sá fyrir. Fyrir vikið er veruleg þörf á að bæta allan þennan veg. Á honum eru fjölmargar einbreiðar brýr, stórar og smáar, og það hefur verið sett í sérstakan forgang að laga þessa hættulegu staði,“ segir hann.

„Í samgönguáætlun eru sett markmið um fækkun einbreiðra brúa og markmið um að lagfæra vegi með nýjum öryggisráðstöfunum,“ segir Sigurður Ingi og segir að dæmi um slíkt séu vegrið sem verið er að setja upp á Núpsvatnsbrú, þar sem banaslys varð síðasta sumar.

mbl.is