Bíllinn í tvennt á undir 2 mínútum

Nokkur fjöldi fólks fylgdist með þegar fólksbíll var sagaður í tvennt á örfáum mínútum á Milwaukee-hátíð Verkfærasölunnar í Síðumúla í dag. 

„Við erum með Milwaukee-hátíðina hérna í dag, sem er hluti af dagskrá Milwaukee-bílsins sem er á ferð um landið þessa dagana,“ segir Marteinn Guðberg Þorláksson, sem sér um innkaup og markaðsmál hjá Verkfærasölunni, í samtali við mbl.is.

„Hér hefur verið hægt að prófa verkfærin og mikið af kaupaukum og tilboðum í gangi,“ segir Marteinn, en hápunktur dagsins var þegar fólksbíll af gerðinni Volkswagen Passat var sagaður í sundur með batterísdrifinni sög frá Milwaukee. „Þessar sagir er mikið notaðar af mönnum í bílaviðgerðir og slíkt þegar verið er að taka í sundur og fleira, þetta eru svo fjölhæfar sagir og við vildum sýna styrkleikann.“

Verkfærasalan bauð fylgjendum sínum á Facebook að giska á hve langan tíma það tæki að saga bílinn í sundur. Hátt í 150 manns giskuðu á tíma allt frá undir mínútu og upp í hátt í klukkustund. Eins og sjá má á myndskeiðinu tók það sögina um eina og hálfa mínútu að saga bílinn í tvennt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert