Slökktu eld við svínabú á Hýrumel

Slökkviliðsmaður að störfum.
Slökkviliðsmaður að störfum. mbl.is/Árni Sæberg

Eldur kom upp í rafmagnsstöð í gámi við svínabúið á Hýrumel í Borgarfirði í dag.

Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar, slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð, barst slökkviliðinu tilkynning um eldinn um tvöleytið. Allar nærliggjandi stöðvar voru kallaðar út og var slökkvistöðin í Reykholti fyrst á vettvang.

„Þeir náðu að bjarga þessu strákarnir,“ segir Bjarni Kristinn um slökkviliðsmennina og bætir við að þeir hafi mjög fljótt náð tökum á eldinum með því að fylla gáminn af froðu en eldurinn var töluverður. Slökkvistarfið tók um tuttugu mínútur.

Spurður hvort svínabúið hafi verið í hættu segir Bjarni að gámurinn standi þar nærri og því sé alltaf hætta á eldur breiðist út. 

mbl.is