Sýklavarnir í ólagi á bráðamóttöku

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn læknaráðs Landspítalans hefur áhyggjur af ófullkominni einangrun sjúklinga á bráðamóttöku sem mögulega bera alónæmar bakteríur. 

„Bráðamóttaka Landspítalans er fyrsti viðkomustaður um 200 sjúklinga sem leita þangað daglega. Þar fá sjúklingar fyrstu greiningu og hluti þeirra þarfnast innlagnar á legudeildir spítalans. Oft reynist mjög örðugt að finna pláss á legudeildum og því hafa sjúklingar þurft að liggja dögum saman á bráðamóttökunni, sem ekki er hönnuð sem legudeild. Vegna eðli[s] bráðadeildar er þjónusta við sjúklinga ekki sú sama og býðst á legudeildum. Sjúklingar þurfa einnig oft að dvelja í gluggalausum herbergjum, í fjölbýli eða á göngum og þurfa í flestum tilvikum að deila salernum.

Vegna ofangreindra vandamála á bráðamóttöku er oft erfitt að koma við grunnatriðum sýkingavarna sem krefjast lágmarks einangrunar. Sjúklingum sem koma erlendis frá hefur fjölgað á undanförnum árum, en þeir geta borið með sér fjölónæma sýkla.

Yfirlæknar á bráðamóttöku, sýkingavarnadeild og sýkla- og veirufræðideild Landspítala hafa allir lýst yfir miklum áhyggjum af ófullkominni einangrun sjúklinga sem mögulega bera nær alónæmar bakteríur. Ljóst er að ástandið verður ekki að fullu lagfært nema með tilkomu nýs meðferðarkjarna, en læknaráð Landspítalans skorar á framkvæmdastjórn LSH að grípa þegar í stað til úrræða til að draga úr vandanum. Jafnframt skorar læknaráð á stjórnvöld að standa við gefin fyrirheit um framkvæmdir við meðferðarkjarnann, en þörf fyrir bætta aðstöðu verður sífellt brýnni, eins og ofangreint erindi varpar ljósi á,“ segir í ályktun læknaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert