„Hafa gaman og gera sitt besta“

Norðurálsmótinu í knattspyrnu lauk um hádegisbil í dag. Um 1.500 keppendur í sjöunda flokki tóku þátt í ár og sýndu allar sínar bestu hliðar í veðurblíðunni um helgina. mbl.is var á Akranesi og fylgdist með mótinu sem er gríðarlega umfangsmikið en 37 félög sendu lið á mótið.

„Fyrir verslun og þjónustu hér og bæjarfélagið í heild er þetta gríðarleg lyftistöng,“ segir Sigurður Þór Sigursteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, en öll tjaldstæði bæjarins voru þéttsetin og mikill fjöldi fólks fylgdi drengjunum á mótið. 

Í myndskeiðinu er rætt við Sigurð en einnig nokkra hressa stráka að norðan sem voru mættir á Skagann með rétta hugarfarið.

Tuttugu vellir voru í stífri notkun frá föstudegi til sunnudags en alls voru liðin um 220 sem skráð voru til leiks. Mikil dagskrá var í kringum mótið þar sem strákarnir gistu saman í skólum bæjarins og fengu að borða í íþróttahúsinu. Þá mættu bræðurnir Jón Jónsson og Frikki Dór og héldu uppi fjörinu á laugardagskvöldinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert