Of fáir standa sig afburðavel

Dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands segir ekki nógu vel gert …
Dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands segir ekki nógu vel gert við afburðanemendur í skólakerfinu. Haraldur Jónasson / Hari

Samkvæmt síðustu PISA-könnun er aðeins 3,8% íslenskra barna í hópi þeirra sem standa sig afbragðsvel í námi. Meyvant Þórólfsson, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir þetta valda sér áhyggjum. „Ég myndi halda að almennt ættu að vera þarna um átta til tíu prósent ef vel væri haldið á spöðunum,“ segir Meyvant í viðtali í sunnudagsblaðið.

Þennan hóp barna kallar Meyvant bráðger börn og virðist lítið gert í málefnum þeirra. Dæmi eru um athyglisverð úrræði og oft er þessum hópi hraðað í námi. „Algengasta svarið var að þörfum allra væri mætt, í skóla án aðgreiningar,“ segir Meyvant um svar við spurningu sem hann sendi til allra grunnskóla í fyrra. Skóli án aðgreiningar snýst um að veita öllum jöfn tækifæri í námi, sem sé mikilvægt að sögn Meyvants, en þar með verði tilhneigingin að draga alla að miðjunni og segir hann að samkvæmt rannsóknum sé þetta ekki góð lausn fyrir bráðger börn.

Meyvant er gagnrýninn á kennslu í náttúruvísindum og segir PISA-könnunina á því sviði reyna á þekkingu og kunnáttu þótt meginmarkmiðið sé að kanna hvernig nemandinn geti nýtt sér þekkinguna. „Sálfræðingar hafa meðal annars bent á þetta. Það þýðir ekki að leggja áherslu á skapandi hugsun ef nemandinn hefur enga grundvallarþekkingu til að byggja á og tengja saman hugmyndir.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert