Tyrkir vildu fá öryggisfylgd frá Keflavík

Tyrkjum fannst illa með sig farið við komuna til landsins …
Tyrkjum fannst illa með sig farið við komuna til landsins og ekki bara þegar að Jón Daði Böðvarsson lét finna fyrir sér á Laugardalsvellinum. mbl.is/Hari

Tyrknesk stjórnvöld sendu íslenska utanríkisráðuneytinu beiðni um að karlalandslið Tyrklands í knattspyrnu fengi hraða vegabréfaskoðun, öryggisfylgd frá Keflavíkurflugvelli á hótel liðsins og öryggisgæslu á hótelinu fyrir landsliðið og fylgdarlið þess.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í umfjöllun á vef RÚV, sem beindi fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins um samskipti íslenskra og tyrkneskra stjórnvalda í tengslum við leik Íslands og Tyrklands á laugadalsvelli 11. júní síðastliðinn, sem olli minniháttar diplómatískum skærum á milli þjóðanna tveggja sem komust í heimsfréttirnar.

Beiðnin barst íslenskum stjórnvöldum 16. maí, samkvæmt svari ráðuneytisins til RÚV, en var ekki áframsend á lögreglu eða KSÍ fyrr en 27. maí. Utanríkisráðuneytið segir að tyrkneskum stjórnvöldum hafi verið ráðlagt að vera í sambandi við lögreglu og KSÍ varðandi öryggismál tyrkneska liðsins hér á landi.

Liðið virðist hafa „vænst sérstakrar meðferðar“

Þá segir ráðuneytið að „öryggisfylgd á borð við þá sem óskað var eftir“ sé „alla jafna ekki veitt, hvorki öðrum landsliðum né því tyrkneska í fyrri ferðum þess til Íslands.“

Einnig kemur fram í svari ráðuneytisins til RÚV að af umfjöllun tyrkneskra fjölmiðla og samskiptum stjórnvalda í kjölfar komu landsliðsins hafi mátt ráða að leikmenn Tyrklands hefðu „vænst sérstakrar meðferðar og hafi því ekki verið reiðubúnir til að undirgangast hefðbundið öryggiseftirlit við komuna sem aftur tafði framkvæmd öryggisleitarinnar.“

Öryggisleitin var þó, eins og fram hefur komið, ófrávíkjanleg skylda, þar sem vél Tyrkja kom frá flugvellinum í Konya, sem er ekki innan heildsstæðs öryggissvæðis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert