Fleiri vilja í vinnuskólann í ár

Nemendur í vinnuskólum sveitarfélaga vinna að því að fegra umhverfið.
Nemendur í vinnuskólum sveitarfélaga vinna að því að fegra umhverfið. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fleiri starfa í vinnuskólum á þessu ári en í fyrra, bæði í Kópavogi og í Reykjavík. 15% fjölgun er í vinnuskóla Reykjavíkur milli ára og eru nemendur um 2.200 talsins í ár. Í Kópavogi eru skráðir um 900 einstaklingar og fjölgaði þeim um 50 milli ára. Allir sem sækja um fá vinnu hjá sveitarfélögunum.

Í Kópavogi er slík vinna í boði fyrir 14 til 17 ára. Hins vegar í Reykjavík stendur þeim til boða vinna sem hafa lokið 8., 9. og 10. bekk eða 14 - 16 ára. Í fyrra var nemendum í 8. bekk aftur boðið að starfa hjá borginni eftir nokkurra ára hlé en um tíma var eingöngu nemendum í 9. og 10. bekk boðin vinna. 

Í bæði Kópavogi og Reykjavík eru flestir sem hafa lokið 8. bekk eða um tæpur helmingur þeirra en færri eftir því sem þeir eldast. Unglingarnir vinna fjölbreytt störf, fyrir utan hefðbundin garðyrkjustörf hafa elstu unglingarnir kost á að vinna hjá ýmsum stofnunum eins og til dæmis í sundlaugum, á bókasöfnum, á sumarnámskeiðum hjá íþróttafélögum og félagasamtökum.

Þetta fyrirkomulag hefur gefið góða raun í Kópavogi og hefur verið við lýði í mörg ár. Eftirsótt er að starfa í leikskólum og hjá íþróttafélögunum. Í fyrra var boðið upp á þetta í fyrsta skipti í Reykjavík og gekk það vel, að sögn Magnúsar. Á þessu ári eru fleiri slík störf í boði, tæplega 200 talsins, en í fyrra.

Fjölbreyttari störf fyrir elstu unglingana í Reykjavík hafa gefið góða raun. „Það er bæði ánægja hjá starfstöðvunum og hjá krökkunum að fá að spreyta sig á öðru en hinum hefðbundnu garðyrkjustörfum,” segir Magnús. 

Allt einfaldara og auðveldara þegar vel viðrar 

„Sumarið hefur verið algjörlega frábært og það er einfalt að fá alla í lið með sér,“ segir Svavar Pétursson verkefnastjóri vinnuskólans í Kópavogi. Hann segir starfsmennina duglega og alltaf nóg af verkefnum fyrir alla.

Magnús Arnar Sveinbjörnsson, skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur, tekur í sama streng. Hann segir allt verða auðveldara í svona góðu veðri eins og hefur verið það sem af er sumri á höfuðborgarsvæðinu.

Vísbendingar eru um að færri störf séu í boði fyrir þennan aldur á höfuðborgarsvæðinu því fleiri sóttu um hjá sveitarfélaginu en í fyrra, að sögn Magnúsar. 

Starfstímabilið er þrjár vikur og geta nemendur valið tímabil. 

Gras borgarinnar þarf að slá og því verkefni sinna nemendur …
Gras borgarinnar þarf að slá og því verkefni sinna nemendur vinnuskólanna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is