„Þú getur ekki selt það sem þú átt ekki“

Mynd úr safni af vötnum á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi á …
Mynd úr safni af vötnum á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

Friðlýsing Drangavíkur á Ströndum væri arðbærari fyrir Árneshrepp og nágrenni en fyrirhuguð virkjun Hvalár sem sveitafélagið veitti leyfi fyrir 12. júní. Þetta segir Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur, en bæði Environice og Skipulagsstofa segja áhrif friðlýsingar mun jákvæðari en virkjunar.

„Þetta er mjög fjölbreytt landsvæði. Náttúran sjálf er mjög einstök og svo eru þarna menningarminjar og söguminjar, minjar um byggð. Svo eru náttúrulega víðernin, ein stærstu samfelldu víðerni í Evrópu. Þetta er í raun nánast ósnortið landssvæði þannig að það er til mikils að vinna að vernda þetta,“ segir Snæbjörn.

Snæbjörn er í forsvari fyrir þá landeigendur sem kærðu í dag framkvæmdarleyfi Árneshrepps sem veitt var Vesturverki, til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er þess farið á leit að nefnd­in beiti heim­ild sinni til að stöðva fyr­ir­hugaðar fram­kvæmd­ir á meðan fjallað er um málið.

Friða á nágrannajörðina

Álit Skipu­lags­stofn­unn­ar á áhrif­um Hvalár­virkj­unn­ar var einkar nei­kvætt og þá hafa Landsvernd og önn­ur nátt­úru­vernd­ar­sam­tök lagst gegn fram­kvæmd­ar­leyf­inu auk þess sem Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands lagði það til í apríl 2018 að landið yrði friðlýst.

„Náttúrufræðistofnun er að leitast eftir því að svæðið þarna við Drangajökul verði friðað. Svo er það umhverfisstofnun sem fer yfir ósk landeiganda við Dranga um að þetta land verði friðað. Svo er annars staðar í stjórnsýslunni verið að vinna að þessari virkjun þannig að þetta tekst svolítið á,“ segir Snæbjörn.

Umhverfisstofnun lagði til fyrr í mánuðinum að landsvæðið Drangar á Ströndum, sem er norður af Drangavík, yrði friðlýst en um landnámsjörð Eiríks rauða er að ræða. Snæbjörn bendir á að sömu rök eru fyrir friðlýsingu Drangavíkur og er fyrir Dröngum, það er að segja menningarminjar og einstök náttúra, og sé fyrirhuguð virkjun í Drangavík því ekki í takti við áætlaða friðlýsingu Dranga sem sé mikið fagnaðarefni.

„Tekjurnar eru meiri af friðlýsingu. Í skýrslu Environice sem kom út í janúar og var unnin af Stefáni Gíslasyni umhverfisfræðingi, var niðurstaðan að það myndi skapast grundvöllur fyrir störf með friðlýsingu. Þau yrðu nokkur sem er mikils virði í svona litlu samfélagi. Öfugt við virkjun sem mun ekki skilja nein framtíðarstörf eftir sig,“ segir Snæbjörn, en samkvæmt skýrslunni hefur friðlýsing jákvæðari áhrif en virkjun á alla þætti sem skoðaðir voru, sérstaklega til lengri tíma litið.

Verið að veita leyfi vegna jarðar í eigu annarra

„Þetta landsvæði hefur sérstöðu að svo mörgu leyti. Fjölbreytileikinn í náttúrunni er mjög mikill. Þú ert með jökla, þú ert með stórfljót, sjávarhamra, jarðhita og hitt og þetta. Svo blandast inn í þetta þessar menningarminjar, minjar um búsetu á svæðinu í þúsund ár,“ segir Snæbjörn. 

Þá segir hann staðreynd málsins vera þá að Árneshreppur hafi veitt leyfi til framkvæmda á landi sem er í eigu annarra og að dæmið gangi því einfaldlega ekki upp.

„Það er alveg ljóst út frá þinglýstum skjölum að þessi hluti Hvalárvirkjunar, Eyvindarfjarðarárveitan, er algjörlega í landi Drangavíkur og þar er fólk á móti virkjun. Þetta er land í einkaeigu. Þú getur ekki selt það sem þú átt ekki. Sveitarfélagið hefur gefið út leyfi fyrir þessu og svo ætla Vesturverk að virkja þarna en þau hafa bara ekki gert samninga við rétta landeigendur. Þetta er ekki í eigu þeirra sem hafa samið við virkjunaraðila. Það er verið að gefa leyfi fyrir framkvæmdum á eignarlandi annarra sem hafa ekki gefið neitt leyfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina