Stuðningur við borgarlínu aldrei meiri

Fyrsti áfangi borgarlínu mun m.a. liggja í gegnum Ártúnshöfða og …
Fyrsti áfangi borgarlínu mun m.a. liggja í gegnum Ártúnshöfða og Elliðaárvog. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

54% landsmanna eru hlynntir borgarlínu en 22% eru andvíg, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu. Aldrei hafa fleiri Íslendingar verið hlynntir borgarlínu en nú frá því að Maskína hóf mælingar í byrjun árs 2018.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru konur hlynntari borgarlínunni en karlar, eða 57,6% kvenna en 51,2% karla. Á sama tíma eru töluvert fleiri karlar andvígir borgarlínunni, eða tæplega 28%, samanborið við 16% kvenna.

Höfuðborgarbúar eru almennt hlynnti borgarlínunni. Reykvíkingar eru hlynntastir, 64,1%, og fylgja nágrannasveitarfélögin þar á eftir þar sem 54,5% eru fylgjandi.

Aldrei hafa fleiri Íslendingar verið hlynntir borgarlínu en nú frá …
Aldrei hafa fleiri Íslendingar verið hlynntir borgarlínu en nú frá því að Maskína hóf mælingar í byrjun árs 2018. Heimild: Maskína

Kjósendur Samfylkingar hlynntastir borgarlínu

Af höfuðborgarbúum eru íbúar miðborgarinnar, Vesturbæjar og Seltjarnarness hlynntastir borgarlínu en íbúar í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal andvígastir. Mestu breytinguna er að finna hjá Garðbæingum. Í fyrra var 31% Garðbæinga hlynntir borgarlínu en nú er 71% hlynntur.

Austfirðingar eru andvígastir borgarlínunni, 37,9% íbúa í þeim landshluta eru andvígir borgarlínu og eru Austfirðingar þeir einu sem eru andvígari borgarlínu nú en fyrir ári síðan. Í öðrum landshlutum eru íbúar hlynntari borgarlínu nú en á sama tíma í fyrra.

Háskólamenntaðir eru hlynntastir borgarlínu en 63% þeirra eru hlynnt henni en 17% andvíg. Þeir sem hafa lokið grunnskólaprófi eru andvígastir borgarlínu, eða 28,4%.

Þá eru þeir sem myndu kjósa flokka meirihlutans meira fylgjandi en þeir sem styðja minnihlutan í borginni. Þeir sem segjast kjósa Samfylkinguna ef kosið yrði til Alþingis í dag eru hlynntastir borgarlínu, eða 83,9% og 4,4% andvígir.

Um 73,5% kjósenda Vinstri Grænna eru hlynntir en 5,5% andvígir og meðal kjósenda Viðreisnar eru 83% hlynntir en 3,7% þeirra andvígir. Afstaða stuðningsmanna Pírata er nokkuð svipur og eru 79,9% þeirra hlynntir og 2,5% andvígir.

Sjálfstæðismenn ekki á einu máli

Ef litið er til flokka minnihlutans er andstaðan við Borgarlínu mest meðal þeirra sem myndu kjósa Miðflokkinn eða 73,9% svarenda, en 9,1% eru hlynntir. Næst á eftir eru stuðningsmenn Framsóknarflokksins en 56,4% þeirra eru andvígir og 29,2% hlynntir. Þá eru 40,2% stuðningsmanna Flokks fólksins eru andvígir línunni en 18,1% hlynntir.

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins virðast klofnir í afstöðu sinni en 33,2% hlynntir Borgarlínu og 35,8% eru andvígir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert