Þrjú umferðarslys í borginni á viku

Þrjú slys og þrjátíu óhöpp til viðbótar urðu í umferðinni …
Þrjú slys og þrjátíu óhöpp til viðbótar urðu í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu dagana 16.-22. júní. mbl.is/Eggert

Síðasta fimmtudag var bifreið ekið utan í gangandi mann og yfir vinstri fót hans, er hann gekk skáhallt yfir Lækjargötu við gangbraut með ljósastýringu. Ökumaðurinn sagði að grænt ljós hefði logað fyrir akstursstefnu hans þegar maðurinn „gekk utan í bifreiðina“, eins og það er orðað í tilkynningu lögreglu um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku.

Maðurinn kvaðst finna til í vinstra hné eftir slysið og fór sjálfur á slysadeild, en hann var einn þriggja sem slösuðust í jafnmörgum slysum dagana 16.-22. júní. Alls var tilkynnt um 30 óhöpp í umferðinni í vikunni.

Bifhjólamaður slasaðist 16. júní, þegar að bifreið var ekið frá Heiðmerkurvegi norður Elliðavatnsveg og í veg fyrir hann. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild og kvartaði undan eymslum í baki og vinstri ökkla.

Mánudaginn 17. júní hafnaði svo bifreið, sem ekið var Grettisgötu á móti akstursstefnu við Barónsstíg, á tveimur mannlausum bifreiðum og endaði á hliðinni. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild, en hann er grunaður um bæði ölvunar- og fíkniefnaakstur.

Frá Grettisgötu aðfaranótt 17. júní.
Frá Grettisgötu aðfaranótt 17. júní. Ljósmynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög,“ segir í tilkynningu lögreglu.

mbl.is