Ákærður fyrir stórfellda árás í Eyjum

Árásin átti sér stað á tjaldsvæði þjóðhátíðargesta við Áshamar í …
Árásin átti sér stað á tjaldsvæði þjóðhátíðargesta við Áshamar í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina 2016. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, sem átti sér stað á tjaldsvæðinu við Áshamar í Vestmannaeyjum 31. júlí 2016. Mál hans var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Manninum er gefið að sök að hafa slegið annan með krepptum hnefa, eða sparkað í andlit hans, og slá hann svo með tjaldstól í andlitið með þeim afleiðingum að fórnarlambið hlaut bólgur og maráverka yfir vinstra auga og vinstra megin á andliti, roða í hægra auga, brot í botni vinstri augntóftar og tvö beinbrot í neðri kjálka.

Maðurinn sem varð fyrir árásinni þurfti að undirgangast aðgerð vegna kjálkabrotsins og hafa áverkar hans verið metnir að 10 stiga varanlegum miska og 5% varanlegri örorku, samkvæmt því sem fram kemur í ákæru.

Í einkaréttarkröfu gerir fórnarlambið kröfu um rúmlega 7,1 milljón króna í skaðabætur, með dráttarvöxtum.

mbl.is