Jómfrúarferð Herjólfs í Landeyjahöfn

Herjólfur fór í jómfrúarferðina í Landeyjahöfn í síðustu viku.
Herjólfur fór í jómfrúarferðina í Landeyjahöfn í síðustu viku. Vegagerðin

Herjólfur IV sigldi í fyrsta sinn í Landeyjahöfn á föstudag og gekk siglingin eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

„Tilgangur ferðarinnar var að sigla í höfnina í fyrsta skipti og sjá hvernig það passar við hafnarmannvirkin í Landeyjahöfn,“ segir Ívar Torfason, fyrsti skipstjóri Herjólfs, á vef Vegagerðarinnar. Ferðin gekk mjög vel enda gátu aðstæður vart verið betri. Siglingin gekk eins og áætlanir gerðu ráð fyrir og þær breytingar sem þarf að gera á hafnarmannvirkjum eru smávægilegar.

Áhöfn Herjólfs IV heldur áfram að æfa sig næstu daga og vikur. Til dæmis þarf að sjá hvernig er að sigla skipinu í verra veðri. „Skipið ristir minna, er léttara og því finnur maður meira fyrir vindi,“ lýsir Ívar.

Ekki er komin föst tímasetning á hvenær skipið siglir sína fyrstu ferð með farþega. Áhöfnin þarf tíma til að æfa sig og þjálfa en auk þess þarf að gera einhverjar breytingar á hafnarmannvirkjum í Vestmannaeyjum.

mbl.is