Lögreglan leitar andapars og kinda

Lögreglan hefur lýst eftir rollum og öndum.
Lögreglan hefur lýst eftir rollum og öndum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á borði afar óvenjuleg mál þessa dagana, en hún leitar að andapari annars vegar og tveimur kindum hins vegar. 

Lögreglan greindi frá því í færslu sinni á Facebook í gærkvöldi að anda-„hjónin“ hefðu horfið frá Garði og voru íbúar hvattir til þess að hafa augun opin. 

„Ætli það gæti v[er]ið að Örkin hans Nóa sé komin í einhverja höfnina þar sem von er á rigningu næstu daga? Það á varla að fara að rigna svona mikið er það?“ sagði í færslunni. 

Þá setti lögreglan aðra færslu inn stuttu seinna þar sem greint var frá því að rollu og lambs væri saknað og að fólk væri beðið um að fylgjast með görðum sínum. 

Í samtali við mbl.is sagði fulltrúi lögreglunnar á Suðurnesjum að dýraleit væri vissulega ekki forgangsverkefni en þegar mál á borð við þessi komi upp sé stundum kallað eftir því að íbúar séu meðvitaðir um hinar týndu skepnur svo að líkurnar á að þær finnist og komist aftur til eiganda síns séu meiri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert