Þrír í haldi vegna heimilisofbeldis

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá grunaða um heimilisofbeldi og eru þeir vistaðir í fangageymslum lögreglunnar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar frá því klukkan 17 í gær þangað til klukkan 5 í morgun. Þar segir að misalvarlegir áverkar séu á þolendum ofbeldisins. Alls voru 63 mál bókuð hjá lögreglunni á tímabilinu.

Í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð lögreglu í matvöruverslun í Kópavogi. Öryggisvörður hafði afskipti af konu sem var grunuð um þjófnað. Konan brást illa við og minni háttar átök enduðu með því að konan beit öryggisvörðinn í handlegg. Öryggisvörðurinn þurfti að leita á slysadeild. Konan var handtekin og flutt á lögreglustöð þar sem hún viðurkenndi þjófnað.

Þrír voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis/fíkniefna. Látnir lausir að lokinni sýnatöku.

mbl.is