Fjórir höfundar til Gautaborgar

Auður Ava Ólafsdóttir er handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Auður Ava Ólafsdóttir er handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Fjórir rithöfundar; Auður Ava Ólafsdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Ragnar Jónasson og Sigrún Eldjárn, munu taka þátt í bókamessunni í Gautaborg í haust en hún er stærsta og um leið fjölsóttasta bókamessa Norðurlanda. Alls sækja um 100.000 manns hátíðina á hverju ári.

Kristín Ómarsdóttir.
Kristín Ómarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Líkt og undanfarin ár munu íslenskir höfundar og bókmenntir fá sinn sess á messunni og í ár kemur Auður Ava Ólafsdóttir, handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Ör, fram í aðaldagskrá messunnar og Kristín Ómarsdóttir, sem tilnefnd er til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Kóngulær í sýningargluggum, verður í ljóðadagskránni Rum för poesi. Auk þessa taka Auður Ava og Kristín þátt í hliðarviðburði sem þýðandinn John Swedenmark stýrir í Världskulturmuséet í Gautaborg.

Ragnar Jónasson.
Ragnar Jónasson. Árni Sæberg

Ragnar Jónasson mun koma fram í glæpasagnadagskránni Crimetime en Ragnar nýtur mikilla vinsælda meðal sænskra lesenda, að því er segir á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Bók hans Dimma er meðal annars á lista yfir bækur ársins þar í landi. Loks kemur Sigrún Eldjárn fram í barnadagskránni Barnsalongen, en nýjasta bók hennar, Silfurlykillinn, er tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs.

Sigrún Eldjárn.
Sigrún Eldjárn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðstöð íslenskra bókmennta heldur utan um dagskrá íslensku höfundanna í samráði við stjórnendur messunnar. Íslenski básinn á bókamessunni er í samstarfi við Íslandsstofu en þar eru bækur íslenskra höfunda kynntar og seldar, margar hverjar í sænskum þýðingum og það er Félag íslenskra bókaútgefenda hefur umsjón með því. Íslensku höfundarnir árita líka bækur sínar á staðnum.

Dagskrá bókamessunnar í ár

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert