Meirihlutinn telur sig búa við öryggi

Fólk á leigumarkaði telur sig ekki jafn öruggt á húsnæðismarkaði og þeir sem búa í eigin húsnæði en heilt yfir virðist húsnæðisöryggi vera nokkuð mikið á Íslandi en 85% landsmanna telja sig búa við það. Þetta kemur fram í rannsókn sem Íbúðalánasjóður gerði meðal fólks á húsnæðismarkaði.

„Ég tel mig búa við húsnæðisöryggi“. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að einungis 51% leigjenda var sammála fullyrðingunni samanborið við 94% þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Marktækur munur mældist á svörun eftir kyni þar sem 87% karlmanna telja sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 83% kvenna. Niðurstöður könnunarinnar sýna einnig að nokkuð áberandi munur er á afstöðu fólks til húsnæðisöryggis eftir stöðu á vinnumarkaði. Öryrkjar töldu sig búa við marktækt minna húsnæðisöryggi en aðrir hópar og 64% öryrkja voru sammála fullyrðingunni um húsnæðisöryggi samanborið við 86% launþega í fullu starfi.

Helstu ástæður þess að fólk telur sig ekki búa við meira húsnæðisöryggi en raun ber vitni, eru þær að fólk hefur ekki efni á leigu eða þykir verðið of hátt. Leigjendur telja sig búa við marktækt verri fjárhagsstöðu en aðrir. Yfir 20% þeirra sem eru á leigumarkaði segjast safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman samanborið við einungis 7% þeirra sem búa í eigin húsnæði. 

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert