Töluvert um umferðarlagabrot á Suðurnesjum

mbl.is/Eggert

Allmörg umferðarlagabrot hafa komið á borð lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Ökumaður sem var stöðvaður í hraðakstri var jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar, sem grunaður var um ölvunarakstur ók sviptur ökuréttindum. Þriðji ökumaðurinn framvísaði ökuskírteini sem reyndist vera grunnfalsað.

Fáeinir ökumenn til viðbótar voru teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur. Þá voru á annan tug ökumanna kærðir fyrir að aka of hratt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Þá barst lögreglunni  tilkynning þess efnis að tveir drengir væri hjálmlausir á vespu á Reykjanesbraut og ækju í áttina til Keflavíkur. Þeir voru stöðvaðir og fluttir á lögreglustöð. Forráðamönnum þeirra var gert viðvart um ferðalagið. Vespuna sögðust þeir hafa fengið að láni á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is