Þau eiga skilið að fá veislu

Bjarni Haraldsson í verslun sinni á Sauðárkróki, sem faðir hans …
Bjarni Haraldsson í verslun sinni á Sauðárkróki, sem faðir hans stofnaði fyrir 100 árum. mbl.is/Björn Jóhann

Í dag eru nákvæmlega 100 ár liðin frá því að Haraldur Júlíusson opnaði verslun sína á Sauðárkróki í timburhúsi að Aðalgötu 22. Allan þennan tíma hefur verslunin verið á sama stað því á árunum 1929-1930 var steinhús byggt utan um timburhúsið, timburhúsið síðan rifið innan úr steinhúsinu og steinhúsið síðan stækkað árið 1944 með því að bæta einni hæð ofan á verslunina.

Þarna hefur fjölskyldan búið nær allan tímann. Hinn 14. mars 1930 fæddist sonur Haraldar og Guðrúnar Bjarnadóttur, hann Bjarni, og dóttirin María fæddist 17. apríl árið eftir. Þau systkini tóku snemma til hendinni í versluninni en ung að árum fluttist María frá Króknum, giftist Guðfinni Einarssyni, útgerðarmanni í Bolungarvík, og bjó þar lengstum. María lést 18. desember 2016.

Guðrún I. Bjarnadóttir og Haraldur Júlíusson ásamt börnum sínum, Maríu …
Guðrún I. Bjarnadóttir og Haraldur Júlíusson ásamt börnum sínum, Maríu og Bjarna, í Lystigarðinum á Akureyri upp úr 1935. Ljósmynd/Úr einkasafni

Bjarni tók við versluninni af föður sínum, fyrst árið 1959 en alfarið eftir að Haraldur lést árið 1973. Guðrún hafði fallið frá 1971, eftir baráttu við krabbamein.

„Pabbi glímdi við veikindi þarna árið 1959 og ég þurfti þá að aðstoða hann meira í versluninni. Ég kom hérna inn og fann síðan ekki útidyrnar, hef verið hérna meira og minna síðan,“ segir Bjarni við blaðamann er við setjumst niður á kontórnum í versluninni.

Draumur Haraldar rættist

Eins og fram kemur hér til hliðar á síðunni stendur til að halda veglega upp á 100 ára afmælið laugardaginn 29. júní næstkomandi.

 „Það er ekki annað hægt en að halda smáveislu, þetta er há tala. Mér finnst líka að þau bæði eigi það vel skilið,“ segir Bjarni og á þar við foreldra sína og fyrirmyndir, Harald og Guðrúnu, sem ruddu brautina og héldu uppi merki verslunarinnar í áratugi.

Áður en Haraldur stofnaði verslunina fyrir 100 árum hafði hann verið verslunarstjóri hjá Kristni P. Briem í ein sjö ár. Hans draumur var að opna eigin verslun, sem varð að veruleika sumarið 1919, er hann var orðinn 34 ára. Haraldur seldi 20 kindur sem hann átti, fyrir heilar 2.000 krónur, sló lán hjá vinum sínum á Akureyri og nurlaði saman öllu sparifénu. Hann keypti lítið timburhús á Sauðárkróki, sem gekk undir nafninu Baldur, var reist 1881 og hafði m.a. hýst úra- og gullsmíðaverkstæði Franks Michelsens, Gistihúsið Baldur og þar áður barnaskólann á Króknum. Haraldur hafði rekið verslun sína í nokkur ár þegar ákveðið var að stækka og reisa steinhúsið.

Í Skagfirðingabók Sögufélags Skagfirðinga, nr. 37 frá árinu 2016, ritar Sölvi Sveinsson m.a. í gagnmerkri grein sinni um kaupmannshjónin, Harald og Guðrúnu:

„Það gegnir furðu að honum skyldi takast að öngla saman fé fyrir húsinu og einhverjum lager, því að ekki dugði að opna verslun ef ekkert væri framboðið af vörum. Og hann átti tímadag þarna: náði að kaupa inn vörur sínar fyrir gengisfall sem dundi yfir um haustið.“ 

Ekki bara verslun

Það er með sanni góður árangur að ná að reka verslun í heila öld, á tímum mikilla samfélagsbreytinga. Verslun Haraldar Júlíussonar á sér merka sögu og tengist ekki aðeins verslun með vörur af ýmsu tagi, heldur einnig samgöngum og flutningum því Haraldur var um árabil með farþegaflutninga um Skagafjörð og til Haganesvíkur í Fljótum og rak afgreiðslu fyrir farþegaflutninga á milli Akureyrar og Borgarness fyrir BSA. Þá þjónaði verslun Haraldar flóabátnum Drangi sem um tíma sigldi á milli Akureyrar og Sauðárkróks á meðan Öxnadalsheiðin var ófær að vetri til. Sá Haraldur þá um að flytja farþega Drangs í Varmahlíð og þaðan komust þeir í rútum áfram suður. Farþegaafgreiðsla var í versluninni allt til ársins 2006, þegar nýir aðilar tóku við því verkefni að flytja farþega milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Bjarni Haraldsson ungur að árum, líklega 12-13 ára, glaðbeittur við …
Bjarni Haraldsson ungur að árum, líklega 12-13 ára, glaðbeittur við glænýjan Studebaker-pallbíl föður síns, með númerinu K-24. Bjarni erfði það númer og er með samnefnt einkanúmer á fólksbíl sínum í dag. Ljósmynd/Úr einkasafni

Árið 1954 stofnaði Bjarni vöruflutningafyrirtæki, til að flytja vörur á milli Sauðárkróks til Reykjavíkur. Á þessum tíma var Bjarni orðinn vanur akstri um þjóðvegakerfi þess tíma, hafði í fjögur ár ekið rútu hjá Norðurleiðum, á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Bjarni hafði eignast International-vörubíl aðeins 18 ára, þegar foreldrar hans gáfu honum bílinn í tilefni bílprófsins 1948.

Vöruflutningana starfrækti Bjarni samhliða versluninni allt til ársins 2001 en eftir að hann byrjaði að starfa við verslun föður síns 1959 dró verulega úr akstrinum og hann réði til sín bílstjóra.

Bensíndælur hafa verið við verslunina síðan 1930, þegar Haraldur tók við umboði BP, er síðar varð Olíuverzlun Íslands, Olís. Er verslunin með allra elstu starfandi umboðsaðilum Olís og hefur félagið heiðrað Bjarna fyrir störf sín öll þessi ár.

Seldi meira en Kaupfélagið

„Ég tók við góðu búi, pabbi og mamma voru vel liðin, bæði hér á Sauðárkróki og úti í sveitunum. Þau voru hjálpsöm og máttu ekkert aumt sjá. Pabbi var duglegur að selja bændunum Deutz-dráttarvélar og ýmis landbúnaðartæki og eitt árið seldi hann meira en Kaupfélagið, þá þótti mér gaman,“ segir Bjarni og hlær dátt. 

Íbúar á Króknum á árum áður nutu greiðvikni og lipurðar kaupmannshjónanna, m.a. þess að taka út vörur í reikning sem var greiddur mánaðarlega eða þegar aðstæður leyfðu, eða jafnvel alls ekki.

Í grein Sölva í Skagfirðingabók má m.a. lesa frásögn sem lýsir vel greiðvikni hjónanna. Kom Guðrún stundum niður í verslunina með brúna innkaupatösku, sem hún átti, og tíndi í hana eitt og annað. „Haraldur lét svo sem hann sæi það ekki. Síðla dags, gjarnan þegar farið var að skyggja á vetrartíð, fór hún með töskuna og gaf fólki það sem í henni var; hún vissi hvar þörfin var brýnust,“ segir í grein Sölva.

Bjarni erfði þessa góðvild og hefur þótt ráðagóður og skemmtilegur kaupmaður. Alltaf með tilbúin svör á takteinum og ávallt til þjónustu reiðubúinn. Einhverju sinni var hann spurður hvernig reksturinn gengi. „Þetta er allt í góðu lagi, ég næ þessu upp á veltunni,“ á Bjarni að hafa sagt. Spurður um sannleiksgildi þessarar sögu brosir kaupmaðurinn sínu blíðasta brosi og spyr á móti: „Næsta spurning?“ 

Bara nefndu það!

Ekki hafa margar verslanir náð að starfa í 100 ár og búðin hans Bjarna er ein örfárra þar sem vörur eru enn þann dag í dag afgreiddar yfir búðarborðið. Þegar komið er inn í verslunina sést fljótt að tíminn hefur nánast staðið í stað, innréttingar eru þær sömu og á afgreiðsluborðinu eru tvær vogir, önnur hefur verið í notkun frá árinu 1941 en hin er safngripur, með merki danska konungsins og var notuð frá 1919 til 1941. 

mbl.is/Björn Jóhann

„Ja, það er nú erfitt, drengur minn,“ segir Bjarni og ræskir sig, spurður hvað honum finnst standa upp úr í aldarsögu verslunarinnar. „Það fyrsta sem mér dettur í hug er fjölbreytt vöruúrval. Hérna höfum við selt alla matvöru nema kjöt, við höfum verið með fatnað, búsáhöld og álnavöru, gjafavörur, olíuvörur og bensín, bara nefndu það.“

Vöruúrvalið kemur skiljanlega fljótt upp í huga Bjarna því þar hefur sérstaða verslunarinnar legið. Í fyrrnefndri grein í Skagfirðingabók er vitnað í vörutalningu Haraldar Júlíussonar frá árinu 1937. Þar kennir ýmissa grasa og má þar nefna matvörur, vefnaðarvörur, járnvörur, barnaleikföng, hreinlætisvörur, pappírsvörur, súkkulaði, krydd, brauð, skófatnað, tóbak, leirtau, málningu og smurolíu.

Oft bankað bakdyramegin

Bjarni nefnir einnig atorkusemi foreldra sinna. Þau hafi verið drifkraftar í samfélaginu og lagt sitt af mörkum. Þannig var Haraldur meðal stofnenda Útgerðarfélags Sauðárkróks og meðal frumkvöðla Verzlunarmannafélags Sauðárkróks og Náttúrulækningafélags Íslands ásamt Jónasi Kristjánssyni og fleirum. Guðrún átti lengi sæti í sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju, starfaði með Kvenfélagi Sauðárkróks og var meðal stofnenda félags sjálfstæðiskvenna á Króknum.

„Það var alltaf mikill erill á heimilinu og margt fólk, bæði í versluninni og á heimilinu. Þó að lokað væri klukkan sex var oft bankað á kvöldin hérna bakdyramegin til að redda hinu og þessu. Ég man að eitt aðfangadagskvöldið var bankað um hálfsjöleytið og beðið um grænar baunir með hangikjötinu.“ 

„Þau vilja að ég hætti“

Þegar Bjarni er spurður hvað hann ætli sér að halda versluninni lengi gangandi kemur smáhik, horfir síðan brosandi á blaðamann og segir: „Þau vilja nú að ég fari að hætta!“

Þar vísar hann til fjölskyldunnar en Bjarni á tvær dætur, þær Guðrúnu Ingibjörgu og Helgu, og soninn Lárus Inga. Dæturnar eignaðist hann með fyrrverandi eiginkonu sinni, Maríu Guðvarðardóttur, en þau skildu árið 1960. Guðrún Ingibjörg býr í Danmörku og er gift Poul Sörensen. Helga er gift Hafsteini Hasler og búa þau í Garðabæ. Eiginkona Bjarna er Ásdís Kristjánsdóttir, móðir Lárusar Inga, en hann er giftur Aldísi Hafsteinsdóttur í Hveragerði.

„Það verður bara að koma á daginn hvenær ég hætti. Ég hef ennþá gaman af þessu vafstri og finnst gaman að hitta fólk,“ segir Bjarni, sem verður níræður á næsta ári. Hann hefur lengið verið með aðstoðarfólk í versluninni en afgreiðslutíminn hefur styst, er nú alla virka daga frá kl. 10 til 12, og 13-18. „Ef ég þarf eitthvað að skreppa frá þá loka ég bara.“

Verslunin hefur staðið af sér miklar breytingar í viðskiptum. Þegar mest lét voru um 30 verslanir starfandi í norðurbænum á Sauðárkróki en þær eru heldur færri í dag.

Bjarni saknar þessara tíma en hann vill þó gera lítið úr þeirri skemmtilegu nafngift að hann sé „bæjarstjórinn í norðurbænum“. Bjarni segist hafa eignast marga góða vini sem ráku verslanir við Aðalgötuna en þeir eru flestir fyrir margt löngu farnir yfir móðuna miklu og fyrirtækin ekki lengur til staðar.

„Ég myndi vilja sjá meira líf í gamla bænum, eða norðurbænum eins og við köllum hann gjarnan. Vonandi rætist úr þessu safni sem er að rísa hérna á móti. Við þurfum að fá fleiri ferðamenn í bæinn,“ segir Bjarni og á þar við sýndarveruleikasafnið 1238 The Battle of Iceland, sem nýlega var opnað á Sauðárkróki. Við hlið verslunar Bjarna er svo lundasafn er nefnist Puffin & Friends en við Aðalgötuna standa m.a. veitingahús, ölkrá, blómaverslun, ljósmyndaverslun, bakarí, hársnyrtistofa, gistihús og verslanir.

„Ég fæ ferðamenn oft til mín en þeir koma aðallega til að skoða verslunina, kaupa nú ekki mikið. Ætli þeir haldi ekki að ég sé orðinn safngripur,“ segir hann og glottir. Þetta má nú til nokkuð sanns vegar færa en fyrir um 15 árum var Byggðasafn Skagfirðinga í samstarfi við verslunina, um að varðveita hana sem minnisvarða um hverfandi verslunar- og viðskiptahætti. Þá stóð tæpt að versluninni yrði lokað en hún lifir enn, sem og Bjarni.

„Kannski að ég endi hérna sem safnvörður á tíræðisaldri, hver veit, ef einhver vill kaupa þetta og varðveita söguna,“ segir kaupmaðurinn að endingu, kátur að vanda.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »