Kristín sækir um sem þjóðleikhússtjóri

Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu.
Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu. mbl.is/Eggert

Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins hefur bæst í hóp umsækjenda um starf þjóðleikhússtjóra. Þetta staðfestir Kristín í samtali við mbl.is, en hún greindi fyrst frá þessu í tölvupósti til starfsmanna Borgarleikhússins.

Kristín hefur starfað sem leikhússtjóri Borgarleikhússins í fimm ár eða frá því Magnús Geir Þórðarson lét af embætti og tók við starfi útvarpsstjóra. Magnús tilkynnti einmitt í dag að hann sæktist einnig eftir embætti þjóðleikhússtjóra.

Kristín segist hafa fengið mikla hvatningu á undanförnum vikum og mánuðum til að sækja um starfið. Það sé köllun hennar að starfa við leikhús, en starf þjóðleikhússtjóra sé ólíkt starfinu í Borgarleikhúsinu að því leytinu til að Þjóðleikhúsið sé leikhús þjóðarinnar og hafi því ríkari skyldur á herðum sér. Í grunninn snúist þetta þó um það sama: að búa til gott leikhús.

Samningur Kristínar við Borgarleikhúsið rennur út um mitt ár 2021 og segir hún aðspurð að hún muni halda áfram starfi leikhússtjóra í Borgarleikhúsinu fari svo að hún fái ekki starf þjóðleikhússtjóra.

Umsóknarfrestur um starfið rennur út í dag og von er á lista yfir alla umsækjendur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert