Um 100 milljónir í Útlendingastofnun

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar, dómsmála og nýsköpunar, …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar, dómsmála og nýsköpunar, segir að rýmkaðri reglugerð í málefnum hælisleitenda verði mætt með aukinni fjárveitingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlendingastofnun fær á næstu árum 100 milljónir króna inn í starfsemi sína umfram það sem áætlað var, meðal annars til að mæta kostnaðinum við breytta reglugerð í málefnum hælisleitenda.

Nú verður Útlendingastofnun að taka mál barna til efnislegrar meðferðar ef það hefur dvalist hér á landi í 10 mánuði, en áður voru það 12 mánuðir. Sú breyting hefur í för með sér fleiri efnislegar meðferðir sem kosta sitt. Þeim kostnaði er mætt með aukinni fjárveitingu, að því er kemur fram hjá RÚV.

Í frétt RÚV er það haft eftir dómsmálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, að í haust verði smíðað frumvarp um breytingu á útlendingalögum. Í hverju þær breytingar eiga að felast liggur ekki fyrir en ríkisstjórnin hefur lýst yfir áhuga á að bæta umgjörð þessara mála, meðal annars með því að stytta meðferðartímann.

Fjölskyldurnar tvær sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga og vikur bíða þess nú að Útlendingastofnun samþykki umsókn þeirra um efnislega meðferð en eftir breytingu ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu. Svo kemur að efnislegu meðferðinni sjálfri, sem tekur sinn tíma.

mbl.is