Konunni sleppt að lokinni yfirheyrslu

Gríðarlega mikill reykur rauk upp vegna eldsins.
Gríðarlega mikill reykur rauk upp vegna eldsins. mbl.is/Árni Sæberg

Konan sem var vistuð í fangageymslu lögreglu eftir að eldur kom upp í íbúð hennar á stúdentagörðunum við Eggertsgötu hefur verið yfirheyrð og var henni sleppt úr haldi lögreglu í framhaldinu. Þetta staðfestir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is.

Enn er of snemmt að segja til um hvort talið sé að um íkveikju eða óhapp sé að ræða. Það kemur í ljós á föstudaginn þegar tæknideild lögreglunnar hefur náð að athafna sig á vettvangi.

Enn sem komið er er ekki tilefni til að fara fram á gæsluvarðhald yfir konunni.

Sambýlismaðurinn ekki yfirheyrður

Vitni sáu konuna hlaupa út úr íbúðinni með reykmökkinn á eftir sér og lét hún öllum illum látum í kjölfarið. Hún var því send á slysadeild, til að athuga með reykeitrun, og vistuð í fangageymslu í framhaldinu.

„Það var ekk­ert hægt að tala við hana í gær, hún var bara ekki viðræðuhæf,“ sagði Jó­hann Karl í samtali við mbl.is fyrr í dag.

Íbúðin, sem varð eldinum að bráð, er samkvæmt heimildum mbl.is tveggja herbergja paraíbúð og býr konan þar ásamt sambýlismanni.

Hann var ekki nálægt vettvangi í gær og því þykir ekki tilefni til þess að yfirheyra hann vegna málsins miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, segir Jóhann Karl.

Slökkviliðsmenn reykræstu íbúðina eftir að hafa slökkt eldinn.
Slökkviliðsmenn reykræstu íbúðina eftir að hafa slökkt eldinn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert