Kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, kveðst ekki sáttur við ákvörðun …
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, kveðst ekki sáttur við ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar fari í umhverfismat. Bæjarráð hefur samþykkt að kæra ákvörðunina. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarráð Akraness hefur falið bæjarstjóra að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um að breikkun Vesturlandsvegar sé háð mati á umhverfisáhrifum. „Við erum fyrst og fremst að horfa til þess að við erum með lögvarða hagsmuni þegar kemur að ferðaöryggi íbúa og viljum tryggja að framkvæmdinni verði hraðað,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness í samtali við mbl.is.

Skipulagsstofnun ákvað um miðjan júní að breikkun Vesturlandsvegar um Kjalarnes þyrfti að fara í umhverfismat, sem getur tafið framkvæmdina í heilt ár.

Sævar Freyr gagnrýnir að ný túlkun á lagatæknilegu atriði verði til þess að tafir verða á úrbótum á vegi sem dæmdur hefur verið hættulegur og segir stofnunina hafa ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni.

Hann segir bæjaryfirvöld á Akranesi hafa rýnt í ákvörðun Skipulagsstofnunar með lögmönnum sínum. „Við höfum komist að því að ákvörðunin sé byggð á mjög langsóttri lögskýringu og ekki sé lagaheimild fyrir ákvörðuninni.“

Kæran er á lokastigi úrvinnslu og verður henni skilað til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir 15. júlí þegar kærufrestur rennur út, segir Sævar Freyr.

Ekki nýr vegur og lítil áhrif

„Hér er um að ræða eldri veg, ekki nýjan veg. Breikkun á vegi í tveir plús einn ásamt hliðarvegum og það er verið raska mjög litlu landi,“ segir bæjarstjórinn og bendir á að framkvæmdin liggur ekki um umhverfisverndarsvæði, ekki um svæði sem nýtur sérstakar verndar, ekki er brotið nýtt land vegna framkvæmdarinnar og að framkvæmdin hefur ekki áhrif á opin víðerni.

„Enginn umsagnaraðili Skipulagsstofnunar taldi að þetta gæfi tilefni til að fara í mat á umhverfisáhrifum,“ útskýrir Sævar Freyr. „Áður en að Skipulagsstofnun tók þessa ákvörðun sinnti hún ekki rannsóknarskyldu sinni og bar ekki þessi umkvörtunarefni undir Vegagerðina sem umsagnaraðila og gaf þeim ekki færi á því að svara þessum atriðum.“

Jafnframt segir hann ákvörðunina í verulegu ósamræmi við fyrri ákvarðanir stofnunarinnar og vísar til framkvæmda við Kjalveg, Grindavíkurveg og endurbætur á Þingvallavegi.

Lagaflækja hliðarvega

Sævar Freyr segir Skipulagsstofnun horfa til lagatæknilegs atriði í Evróputilskipun sem snýr að magni hliðarvega til þess að rökstyðja ákvörðunina um að framkvæmdin fari í umhverfismat. „Það er þetta atriði sem er mjög langsótt að mati okkar lögmanna og okkar. Þar af leiðandi er það mat okkar að ekki er lagaheimild fyrir ákvörðuninni og þess vegna viljum við fá hana ógilda.“

„Það vakir fyrir okkur að þessi vegur sem hefur að mati Vegagerðarinnar og sérfræðinga verið dæmdur hættulegur,“ segir hann og telur þann þátt eiga að ráða för í stað nýrrar túlkunar á löggjöfinni.

mbl.is