Áttræður Þristurinn lék listflug

Þristurinn býr sig til lendingar.
Þristurinn býr sig til lendingar. Ljósmynd/Jón Svavarsson

Í ár eru 100 ár frá því Flugfélag Íslands, það fyrsta af þremur samnefndum, var stofnað. Af því tilefni var flugsagan þema árlegs afmælisfögnuðar Flugmálafélagsins sem fram fór um helgina á Helluflugvelli.

Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélagsins, segir að hátíðin hafi gengið frábærlega og metþátttaka hafi verið. Hann áætlar að áhorfendafjöldi hafi hlaupið á hundruðum eða þúsundum þegar mest lét í gær.

Áhorfendur fylgjast grannt með fluginu.
Áhorfendur fylgjast grannt með fluginu. Ljósmynd/Jón Svavarsson

Flugsýningar stóðu yfir yfir í allan gærdag, en Matthías segir ekki um skipulagða dagskrá að ræða. Menn hafi bara ræst sínar vélar og flogið þeim um þegar þeim sýndist, gestum til skemmtunar. Einn hápunkta hátíðarinnar hafi verið þegar Þristurinn, Douglas DC-3 flugvél Flugfélags Íslands, lék listflug í fylgd tveggja véla.

Þristurinn var smíðaður árið 1943, og er því á áttræðisaldri, en hún var tekin í notkun hjá Flugfélagi Íslands þremur árum síðar. Seinna nýttist hún sem landgræðsluvél undir nafninu Páll Sveinsson, en er nú í umsjá Þristavina í Flugsafni Íslands og einkum nýtt í sýningar- og kynnisflug.

Þegar blaðamaður náði tali af Matthíasi í gær var hann að undirbúa grillveislu kvöldsins, en hátíðarhöldum dagsins lauk síðan með kvöldvöku í flugskýlinu á Hellu.

Þristurinn ásamt tveimur fylgdarvélum.
Þristurinn ásamt tveimur fylgdarvélum. Ljósmynd/Jón Svavarsson
mbl.is