Grunur um Parvó-smit á Austurlandi

Egilsstaðir. Óstaðfestur grunur er um að hundur hafi smitast af …
Egilsstaðir. Óstaðfestur grunur er um að hundur hafi smitast af Parvó smáveirusótt á Austurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi

Óstaðfestur grunur er um að hundur á Austurlandi hafi veikst af Parvó smáveirusótt. Þetta segir Daníel Haraldsson, þjónustudýralæknir á Egilsstöðum, en hann tilkynnti um tilfellið til yfirdýralæknis í gær og hefur sent sýni á Keldur með flugi til staðfestingar á grun sínum.

Þá hefur Daníel komið þeim upplýsingum áleiðis til hundaeigenda að koma ekki með hundana inn á dýralæknastofu sína, heldur bíða með þá úti í bíl fyrst um sinn, þar til athugað hefur verið nánar hvað ami að viðkomandi hundi. Parvó smáveirusótt er bráðsmitandi að hans sögn fyrir unga og óbólusetta hunda.

Sýni send til skoðunar í Reykjavík

Daníel ítrekar að um óstaðfestan grun sé að ræða og veit hann ekki um nein fleiri tilfelli. „Ég hef sent sýni í greiningu hjá Keldum hjá Háskóla Íslands sem verða væntanlega komin þangað í dag. Þá fáum við væntanlega staðfestingu á því hvað þetta var,“ segir hann. „Við förum varlega hér á stofunni þar til við vitum hvað þetta var,“ segir Daníel. „Ég segi ekki að ég vilji ekki fá hunda á stofuna, heldur viljum við bara fá að tala við fólk áður en það kemur inn,“ segir hann.

Einkenni Parvó eru blóðugur niðurgangur og blóðug uppköst. „Ef hundar drepast af þessu, þá er það yfirleitt úr vökvaskorti og blóðskorti,“ segir Daníel. Sýkingin gengur fljótt yfir og getur í verstu tilfellum leitt til dauða. Spurður hvort öðrum dýrategundum stafi hætta af segir hann að engar áhyggjur þurfi að hafa af því. 

Fer ekki á milli mála

Daníel segir að niðurgangur og uppköst hafi verið að ganga og að fólk sé áhyggjufullt af þeim sökum. „Það reikna ég með að sé eitthvað annað. Það fer ekki á milli mála ef hundur er með Parvó,“ segir hann.

Sýndi þessi hundur þá skýr einkenni um smit?

„Já, skýr einkenni. Þegar maður sendir sýni á Keldur, þá er það úr hræi. Þetta er mjög akút, ekki venjuleg uppköst og niðurgangur. Ég get sagt að líffæri var sent á Keldur úr þessum hundi sem um ræðir,“ segir hann. 

mbl.is