„Léttir að sjá vélina fara í loftið“

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC.
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC. mbl.is/Kristinn Magnússon

Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, eiganda flugvélarinnar TF-GPA sem áður var í notkun hjá WOW air og var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli í þrjá og hálfan mánuð, segir að hann sé ofsalega ánægður með að þessum kafla sé nú lokið, en í morgun hélt flugvélin af landi brott eftir að héraðsdómur hafði úrskurðað að ALC hefði þegar greitt þá upphæð sem því bar að greiða vegna gjalda á Keflavíkurflugvelli.

Oddur segir að ferlið undanfarinn sólarhring hafi gengið vel. „Eftir að við vorum hjá sýslumanninum á Suðurnesjum í gærmorgun og sýslumaðurinn féllst á að gerðin skyldi fara fram, að dómi héraðsdóms yrði fullnustað og skorað á Isavia að láta af tálmunum, hefur allt gengið hratt og vel fyrir sig,“ segir Oddur í samtali við mbl.is.

Hann segir lögmenn ALC hér á landi á lögmannsstofunni LMB Mandat hafa verið í viðbragðsstöðu síðasta sólarhringinn og tilbúna að bregðast við ef eitthvað hefði komið upp. „En til þess kom þó ekki og þetta hefur í sjálfu sér gengið smurt,“ segir hann. „Það var léttir að sjá vélina fara í loftið og veifa henni bless.“

Vélin fer að sögn Odds fyrst í viðhald og standsetningu. Oddur hefur ekki upplýsingar um næstu verkefni vélarinnar en segir að væntanlega þurfi ekki að bíða lengi þangað til hún verði leigð áfram, enda eftirsóttar vélar í dag að hans sögn. Vísar Oddur til stöðunnar með kyrrsetningu Boeing 737 MAX farþegaþotum, enda séu vélarnar líkar að drægni og stærð.

Spurður um næstu skref segir hann að vafalaust muni einhver verkefni fylgja. Þannig liggi fyrir að Isavia hafi kært úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og eftir atvikum þurfi mögulega að skila þar inn greinargerðum. Oddur segir samt að í ljósi stöðunnar sem nú sé komin upp telji hann rétt að Isavia felldi þá kæru niður. „Vélin er farin og hagsmunirnir um garð gengnir,“ segir hann.

Hann nefnir þó að Isavia geti reynt að koma málinu fyrir dóm með öðrum hætti til að fá úr því skorið með öðrum hætti hvort staðið hafi verið að gerðinni með réttmætum hætti. Þá ítrekar hann fyrri ummæli sín um að til skoðunar sé af hálfu ALC hvort rétt sé að sækja tjón félagsins vegna kyrrsetningarinnar. Nú sé hins vegar hásumar og segir Oddur glaður í bragði að kannski sé í lagi að það verði örlítið rólegra í næstu daga.  

TF-GPA vélin á leið í loftið í morgun.
TF-GPA vélin á leið í loftið í morgun. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert