Eftir stendur að vextir hækka á alla

Verði frumvarpið að veruleika í óbreyttri mynd munu fastir vextir …
Verði frumvarpið að veruleika í óbreyttri mynd munu fastir vextir víkja fyrir vöxtum sem háðir verða ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Hún er ansi sveiflukennd, eins og dæmin sanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vextir á verðtryggðum námslánum hefðu verið 4,5% fyrir áratug, ef fyrirhugað námslánakerfi, sem menntamálaráðherra hefur lagt fram, hefði verið við lýði. Þess í stað voru vextirnir 1%. Á þetta er bent í umsögn stúdentaráðs um frumvarpið, sem send var mbl.is.

Verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd verður föstum 1% verðtryggðum vöxtum, sem tíðkast hafa um árabil, skipt út fyrir breytilega vexti, sem samkvæmt frumvarpinu munu taka mið af vöxtum tiltekinna ríkisskuldabréfa, að viðbættu álagi til að mæta afföllum. Miðað við núverandi forsendur yrðu verðtryggðir vextirnir um 1,5% (en þar er miðað við að ávöxtunarkrafa viðeigandi ríkisskuldabréfs sé nú 0,8%, og álagið sem kveðið er á um í greinargerð á bilinu 0,6-0,8%). Þessari vaxtahækkun þurfa stúdentar að kyngja til að eiga möguleika á 30% niðurfellingu námslána við námslok, líkt og lagt er upp með í frumvarpinu.

Varasamt að setja ekkert þak

Í samtali við mbl.is segir Marinó Örn Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi stúdenta, að miðað við núverandi vaxtaskilyrði ætti hið nýja frumvarp að koma stórum hluta námsmanna til góða. Þrjátíu prósenta niðurfellingin við námslok geti vegið þyngra en vaxtahækkunin. Þar geti þó brugðið til beggja vona, líkt og áður hefur verið komið inn á, því þegar harðnar í ári og vaxtakjör ríkisins rjúka upp komi vextir á námslánum til með að gera það líka.

Líkt og fram kemur í umsögn stúdentaráðs hafa vaxtakjör ríkisins aldrei verið jafngóð og nú. Því sé raunhæft að gera ráð fyrir að vaxtastig námslána, miðað við nýtt frumvarp, væri í lægstu lægðum um þessar mundir en gæti hækkað til muna þegar kreppir að og vaxtakjör íslenska ríkisins versna. 

Óásættanlegt sé að vextir geti hækkað og lækkað jafnófyrirsjáanlega og ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa gerir. Verði kerfið innleitt gæti farið svo að fólk hagi námsvali sínu eftir vaxtakjörum ríkisins og veigri sér við að fara í nám þar til vextir lækka, að því er segir í umsögninni.

Í núverandi lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna er þess getið að verðtryggðir vextir skuli aldrei vera hærri en 3%, en þeir hafa sem fyrr segir verið 1% frá árinu 1992. Telur stúdentaráð að hag stúdenta sé best borgið með því að orðalag greinarinnar sé látið standa óbreytt. „Ef sú staða kæmi upp síðar að hækka þyrfti hámarksvexti námslána ætti slík pólitísk ákvörðun heima á Alþingi en ekki hjá stjórn sjóðsins.“

Nafnabreyting dugir ekki til

Í frumvarpsdrögum ráðherra er lagt til að nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði breytt í Stuðningssjóð íslenskra námsmanna. Þykir einhverjum það þunnur þrettándi. Í umsögn stúdentaráðs segir að nafnabreyting ein og sér dugi ekki til að gera sjóðinn að stuðningssjóði, þótt hún kunni að gera hann meira aðlaðandi að almenningsáliti.

Eftir standi að hækka eigi vexti á alla námsmenn, og þá sé ljóst að kröfur um námsframvindu verði til þess að ekki standist allir lántakendur þau skilyrði sem gerð eru til að fá 30% höfuðstóls niðurfelld.

Stúdentaráð setur spurningarmerki við framsetningu frumvarpsins um að verið sé að auka stuðning til stúdenta. Öllu heldur miði frumvarpið að því að jafna dreifingu þess styrks sem sjóðurinn telur sig þegar veita stúdentum í gildandi kerfi.

Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi stúdenta í stjórn LÍN.
Marinó Örn Ólafsson, fulltrúi stúdenta í stjórn LÍN. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert