Hæfisnefndin valdi Eirík

Eiríkur Jónsson, prófessor í lögfræði.
Eiríkur Jónsson, prófessor í lögfræði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umsögn hæfisnefndar, sem skipuð var vegna skipanar í lausa stöðu dómara í Landsrétti, hefur verið birt. Þegar hafði verið greint frá því í fjölmiðlum að Eiríkur Jónsson hefði verið metinn hæfastur, en Kjarninn hafði það eftir heimildarmönnum sínum. Reyndist það raunin.

Til stend­ur að skipa í stöðu eins dóm­ara í Lands­rétt eft­ir að Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son sagði starfi sínu lausu í vor og gaf út að hann hygðist setj­ast í helg­an stein. Vil­hjálm­ur var einn þeirra ell­efu sem skipaðir voru í dóm­ara­sæti Lands­rétt­ar 2017.

Eiríkur var sem fyrr segir álitinn hæfastur, en á eftir honum koma Ásmundur Helgason, Jón Höskuldsson og Ástráður Haraldsson, í þessari röð.

Ósammála síðustu hæfisnefnd

Fjórmenningarnir voru allir meðal umsækjenda um stöðu Landsréttardómara þegar upphaflega var skipað í réttinn árið 2017. Þrír þeirra, allir nema Ásmundur, voru á meðal 15 efstu manna á listanum, en Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, færði niður á lista og hlutu þeir því ekki starfið.

Í umsögn hæfisnefndar nú, sem skipuð er öðru fólki, er röð fjórmenninganna óbreytt með þeirri undantekningu að Ásmundur er metinn næsthæfastur, hæfari en Jón og Ástráður.

Í hæfisnefnd sátu Eiríkur Tómasson formaður, Halldór Halldórsson, Óskar Sigurðsson, Sigríður Þorgeirsdóttir og Valtýr Sigurðsson.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert